Umsjón: Linda Björk Jónsdóttir Hvolpasýning HRFÍ var haldin 4. nóvember 2023 í reiðhöllinni í Víðidal þar sem 229 hvolpar voru skráðir á aldrinum 3-9 mánaða. Dómarar voru Anna Guðjónsdóttir, Erna Sigríður Ómarsdóttir, Ágústa Pétursdóttir, Þorbjörg Ásta Leifsdóttir, Þórdís Björg Björgvinsdóttir, Lilja Dóra Halldórsdóttir og Auður Sif Sigurgeirsdóttir. Úrslit og umsagnir í einstaka tegundum á hundavef. Lilja Dóra Halldórsdóttir Lilja dæmdi úrslit í yngri hvolpaflokki á hvolpasýningu HRFÍ í nóvember. Hvolpasýningar frábær æfing fyrir ungviðið Hvolpasýningar eru frábær æfing fyrir hvolpa og sýnendur, almennt minni og rólegri viðburður en stóru all-breed sýningarnar okkar. Þá eru þær mikilvægur vettvangur fyrir dómara og dómaranema að æfa sig á nýjum tegundum, máta umsagnir og þjálfa augað. Hvolpar eru auðvitað það dásamlegasta í heimi og mér finnst mikilvægt að gefa þeim þann tíma sem þeir þurfa til að sýna sínu góðu hliðar. Það getur verið yfirþyrmandi fyrir ungan hvolp að koma inn í sýningahöll innan um allt fókið og hundana og láta ókunnuga manneskju svo skoða sig í krók og kima í sýningahringnum. Ég geri það sem ég get til að upplifun þeirra verði sem best og finnst það mikilvægara en að hvolpurinn þoli alla skoðun. Hvolpasýningin í nóvember held ég að sé sú stærsta sem félagið hefur haldið. Reiðhöllin í Víðidal var ansi köld þennan dag og við þurfum að huga betur að því næst. Ég fékk marga framúrskarandi hvolpa inn í hring og sérstaklega langar mig að nefna french bulldog og chow-chow. French bulldog hvolparnir voru 11 talsins og almennt af góðri tegundargerð. Stjarnan var lítil þriggja mánaða tík með mikla útgeislun, áhyggjufullan svip og sem hreinlega átti hringinn þegar hún fór af stað. Besti hvolpur var 6 mánaða mjög fín tík með fallegt höfuð, þéttan líkama og týpískar hreyfingar. Chow hvolparnir fjórir voru allir af réttri tegundargerð, jafnir að hæð og lengd, með heilbrigð augu, sterkleg höfuð og líkama og hinar týpísku fremur stuttu „skimming“ hreyfingar. Ég dæmdi úrslit í besta ungviði sýningar (3-6 mánaða) og taldi 35 hvolpa í stóra hringnum, algjörlega dásamleg skott þar sem margir gripu augað fyrir framúrskarandi tegundargerð, lofandi útlínur, svip og hreyfingar. Svo duglegir allir saman og margir að koma á sína fyrstu sýningu! Ég vildi óska að ég hefði haft allavega tíu sæti til að raða í, en á endanum stóðu eftir glæsilegur íslenskur fjárhundsrakki, flatcoated retriever rakki með sérlega fallegar hreyfingar, litla french bulldog apparatið og fallega byggð sheltie tík, í þessari röð. Mig langar að þakka öllum eigendum og sýnendum fyrir skemmtilegan (en kaldan) dag og ég vona að hvolpasýningarnar okkar verði reglulegur viðburður í framtíðinni. Bestu ungviði sýningar Dómari: Lilja Dóra Halldórsdóttir Bestu hvolpar sýningar Dómari: Þórdís Björg Björgvinsdóttir Comments are closed.
|