Umsjón: Kristjana Knudsen // Linda Björk Jónsdóttir // ljósmyndari sýningar: Ágúst E. Ágústsson Helgina 7. – 8. október fór fram alþjóðleg sýning HRFÍ sem haldin var í reiðhöll Spretts í Kópavogi. Um það bil 1100 hundar voru skráðir á sýninguna og 34 krakkar í keppni ungra sýnenda. Dómarar sýningarinnar voru þau Auður Sif Sigurgeirsdóttir frá Íslandi, Elisabeth Spillman og Moa Persson frá Svíþjóð, Gerard Jipping frá Hollandi, Maija Mäkinen frá Finnlandi, Refet Hadzic frá Bosníu og Tatjana Urek frá Slóveníu, en Tatjana dæmdi auk þess keppni ungra sýnenda. Íslenskir sýningadómarar á uppleið! Auður Sif Sigurgeirsdóttir dæmdi tegundahóp 8 á sýningunni og var það í fyrsta skipti sem íslenskur dómari dæmir keppni í tegundahópi. Íslenskum sýningadómurum fer fjölgandi og núverandi dómarar bæta ört við sig réttindum á nýjar tegundir. Á sýningunni tóku fjórir íslenskir dómarar próf á nýjar tegundir og stóðust þau öll. Daníel Örn Hinriksson bætti við sig dómararéttindum á russian toy, Herdís Hallmarsdóttir og Sóley Halla Möller bættu við sig dómararéttindum á border collie og Sóley Ranga Ragnarsdóttir bætti við sig dómararéttindum á french bulldog. Dómaraviðtöl við Auði Sif Sigurgeirsdóttur, Maija Mäkinen og Moa Persson er að finna hér fyrir neðan. Tenglar á myndir á facebook síðu HRFÍ: Laugardagur: Tegundahópar: 1 // 7 // 9 // 10. Sunnudagur: Tegundahópar: 2 // 3 // 5 // 4/6 // 8. Keppni ungra sýnenda. Úrslit: Úrslit og umsagnir í einstaka tegundum. Úrslit í úrslitahring. -Auður Sif Sigurgeirsdóttir frá Íslandi Afghan hound á stóran stað í hjartanu og varð hún ekki fyrir vonbrigðum með hópinn sem hún dæmdi Hún byrjaði laugardaginn á að dæma afghan hound, tegund sem á stóran hluta af hjarta hennar enda átti hún afghan hound í tæp 14 ár. Þeir komu henni skemmtilega á óvart og fyrstur inn í hring var dásamlegur hvolpur sem sýndi sig eins og stjarna! Mjög lofandi rakki með dæmigerðar útlínur, fallegar hreyfingar og virkilega fallegt skott með hring á endanum sem er eitt af mikilvægu einkennum tegundarinnar. Hún valdi þennan sjarmör svo sem besta hvolp laugardagsins. Besti hundur tegundar var mjög vel heppnaður og myndarlegur ungur rakki og það sem stóð upp úr við hann voru hreyfingarnar; kraftmiklar en samt svo léttar og áreynslulausar eins og hann svifi um á skýi ásamt skreflengdinni (e. reach and drive) sem var mjög góð en henni finnst oft vanta hjá tegundinni. Hann ákvað svo að haga sér eins og dæmigerður afghan-unglingur (hirðfífl) í úrslitum í tegundahópnum og lét eins og trúður sem hafði aldrei farið á sýningu áður! Hún viðurkennir fúslega að hún hló að honum þó hún sé viss um að eigandanum var kannski ekki endilega hlátur í huga. Tíkin sem var best af gagnstæðu kyni var einnig virkilega falleg og verðugur fulltrúi tegundarinnar. Henni finnst tegundin á Íslandi vera í góðum málum miðað við þá hunda sem hún dæmdi og skapgerðin góð. Það eina sem hún tók eftir, sem ræktendur mættu athuga, eru skottin sem sum hver voru of beygð og borin heldur hátt. Whippet sigurvegarinn nánast fullkominn að öllu leiti Næsta tegund á dagskrá var whippet, tegund sem hún hefur dáðst að í mörg ár. Whippetarnir ollu henni svo sannarlega ekki vonbrigðum og var hún mjög ánægð með heildargæðin. Besti hundur tegundar var nákvæmlega eins og whippet er lýst í ræktunarmarkmiði tegundarinnar! Hann var mjög nálægt því að vera fullkominn! Með afar fallegar útlínur, fallegt höfuð, hárrétta topplínu, rétta vinkla í jafnvægi að framan og aftan og virkilega fallegar og réttar hreyfingar fyrir tegundina; jarðbundnar með góða skreflengd. Hreyfingarnar endurspegluðu vel byggingu hans. Besta tík tegundar var einnig mjög falleg og rétt á allan hátt og verðugur fulltrúi tegundarinnar. Þau voru í raun mjög lík hvort öðru, hann dæmigerður rakki og hún dæmigerð tík. Whippetar eiga ekki að vera ýktir á neinn hátt og þessi tvö voru það einmitt alls ekki, hvorki í byggingu né hreyfingum. Það var frábært að sjá rakkann sigra tegundahóp 10 og verða 3. besti hundur sýningar! Hér á Íslandi líkt og annars staðar mættu ræktendur reyna sitt besta að passa upp á stærðina en hún er nú nokkuð viss um að þeir séu flestir mjög meðvitaðir um það. Góð heildargæði í australian shepherd Australian shepherd voru af fínum heildargæðum og var hún mjög sátt með þá hunda og tíkur sem urðu í 1.-4. sæti um bestu hunda og tíkur tegundar. Besti hvolpur tegundar var mjög falleg og lofandi tík sem hún valdi svo í 4. sæti í keppninni um besta hvolp dagsins. Besti hundur tegundar var virkilega falleg tík með fallegar hliðarhreyfingar og góða skreflengd. Það var gaman að sjá hve vel henni gekk í sterkum tegundahópi 1 en þar var hún valin í 3. sæti. Bestur af gagnstæðu kyni var meðalstór rakki af mjög fallegri tegundargerð, með fallegar áreynslulausar hreyfingar. Hún átti í þó nokkrum erfiðleikum með að velja á milli fjögurra bestu rakkanna en þeir voru allir með kosti og galla sem hún þurfti virkilega að vega og meta. Öldungatík í síðhærðum schäfer heillaði Auði Sif en henni fannst margir virkilega góðir, sérstaklega tíkurnar Lokategund laugardagsins var síðhærður schäfer en schäfer er tegund sem Auður Sif hefur átt frá árinu 2009 og finnst henni fátt skemmtilegra en að dæma þá. Hún var mjög ánægð með heildargæðin og voru margar tíkur sem heilluðu hana. Besti hundur tegundar var öldungatík í frábæru formi sem heillaði hana upp úr skónum með gríðarlega kraftmiklum hreyfingum og tegundartýpískri skapgerð sem skein í gegn þegar hún hreyfði sig. Mikill vinnuþjarkur sem gæti unnið langan og strangan vinnudag án þess að blása úr nös! Bestur af gagnstæðu kyni var mjög myndarlegur og stæðilegur rakki sem hafði alla þá kosti sem síðhærður schäfer á að búa yfir. Hún var mjög hrifin af öllum tíkunum sem urðu 1.-4. bestu tíkur hjá henni ásamt hinum tveimur sem fengu CK. Enskur cocker spaniel af miklum gæðum hér á landi Á sunnudeginum var hún svo heppin að fá að dæma allar tegundir í tegundahópi átta að labrador retriever undanskildum. Hún byrjaði daginn á enskum cocker spaniel og þótti mjög gaman að fá að dæma svo marga fallega hunda í háum gæðaflokki. Besti hundur tegundar var algjörlega framúrskarandi hundur á allan hátt. Hann var gæddur öllum þeim eiginleikum sem enskur cocker á að búa yfir; nánast óaðfinnaleg líkamsbygging, áreynslulausar hreyfingar af réttri skreflengd og dásamleg skapgerð! Líkt og besti hundur tegundar í whippet var hann eins og ræktunarmarkmið tegundarinnar lýsir hinum dæmigerða hundi. Besta tík tegundar var í sama gæðaflokki og rakkinn. Framúrskarandi öldungur á allan hátt og sýnd í toppformi. Besta ungviði og besti hvolpur tegundar voru báðar mjög lofandi tíkur sem heilluðu Auði. Henni finnst tegundin vera í mjög góðum málum hér á landi miðað við þá hunda sem hún dæmdi. Ameríska cocker spaniel tíkin var með mikla útgeislun Á eftir enskum cocker var röðin komin að ameríska cockernum. Besti hundur tegundar var mjög falleg tík úr opnum flokki sem heillaði hana með fallegum hreyfingum og dæmigerðum útlínum. Bestur af gagnstæðu kyni var rakki úr meistaraflokki en það sem tíkin hafði fram yfir hann var skapgerðin sem skein í gegn á hreyfingu. Tíkin sem var besta ungviði tegundar var mjög lofandi og er hún viss um að hún eigi framtíðina fyrir sér. Sumir hundanna voru ekki með nógu góð bit og er það eitthvað sem ræktendur mættu athuga. Golden retriever voru af nokkuð blönduðum gæðum Golden retriever voru nokkuð misjafnir en þó voru margir sem heilluðu hana. Besti hundur tegundar var mjög heillandi og falleg tík úr opnum flokki sem hreinlega elskaði að sýna sig og hreyfði sig mjög vel. Það sama má segja um rakkann sem varð bestur af gagnstæðu kyni en hann kom úr meistaraflokki og fannst mér þau af mjög líkri tegundargerð. Ég átti þó nokkuð erfitt með að velja á milli 1. og 2. bestu tíka tegundar en 2. besta tík kom úr unghundaflokki og var líka einkar fallegur fulltrúi tegundarinnar. Spennandi að sjá nýlega tegund hér á landi - portuguese water dog Í sumar fékk Auður Sif dómararéttindi á portuguese water dog og var hún mjög spennt að fá að dæma þá. Tveir hundar voru skráðir, einn rakki og ein tík og voru þau bæði sýnd í ungliðaflokki. Henni fannst þau bæði nokkuð góðir fulltrúar tegundarinnar en þó hefði hún viljað sjá meiri fyllingu í líkama, meiri breidd í höfuðkúpu og trýni og sterkari og meiri bein. Besti hundur tegundar í enskur springer spaniel dæmigerð tík og með kraftmiklar hreyfingar Hún var ánægð með bestu tík og rakka í enskum springer spaniel. Tíkin sem varð besti hundur tegundar var mjög falleg, með kraftmiklar hreyfingar og dæmigerður fulltrúi tegundarinnar. Rakkinn sem varð bestur af gagnstæðu kyni var fallegur fulltrúi en þó hefði hún viljað sjá hann ögn háfættari og með kraftmeiri hreyfingar. Flat-coated retriever með dæmigerða og góða skapgerð og hvolparnir efnilegir Síðasta tegund sunnudagsins var hinn sídillandi flat-coated retriever og var hún svo heppin að fá að dæma nokkra dásamlega hvolpa sem voru allir mjög lofandi fyrir utan eina tík, sem þó var að öllu leyti mjög lofandi en því miður með rangt bit. Hún var mjög sátt með bestu tík og besta rakka tegundar sem voru bæði mjög falleg og dæmigerðir flattar. Allir hundarnir voru með hina dásamlegu skapgerð sem tegundin er þekkt fyrir. Það var virkilega gaman að enda dóma dagsins á þessum yndislegu hundum. Hápunktur sýningarinnar hjá Auði Sif var að fá að dæma úrslit í tegundahópi átta Hápunktur sýningarinnar og einn af hápunktum dómaraferils Auðar var að fá að dæma úrslit í tegundahópi 8 og langar henni að nota tækifærið og þakka sýningarstjórn HRFÍ fyrir það einstaka tækifæri og traust. Hún átti ekki í erfiðleikum með að velja sigurvegarann sem var framúrskarandi enski cocker spaniel rakkinn og var hann síðar sama dag, henni til mikillar ánægju, valinn 2. besti hundur sýningar! Einnig fannst henni mjög skemmtilegt að sjá whippet-rakkann í 3. sæti í keppninni um besta hund sýningar. Hún var mjög stolt og montin að „eiga“ þar tvo af fjórum bestu hundum sýningar. Auði Sif langar að nota tækifærið og hrósa skipuleggjendum og aðstandendum sýningarinnar fyrir frábæra sýningu í alla staði. Vel var hugsað um þau dómarana og var hún einstaklega heppin með frábært starfsfólk í hringnum báða dagana. Hún verður líka að fá að hrósa sýnendum sem stóðu sig svo vel og náðu fram því besta í hundunum. Góður sýnandi auðveldar dómara störfin svo um munar. Henni fannst notaleg, góð og jákvæð stemning meðal sýnenda í öllum þeim tegundum sem hún dæmdi og var gaman að sjá þá samgleðjast og óska hver öðrum til hamingju með góðan árangur. Að lokum vill hún þakka HRFÍ fyrir boðið, starfsfólki sýningarinnar og öllum þeim sem skráðu og sýndu hundana sína hjá henni. -Moa Persson frá Svíþjóð Moa hefur dæmt á Íslandi nokkrum sinnum áður eða alveg síðan á 9. áratug síðustu aldar. Hún er virkilega hrifin af þróun hundaræktunar og hundamenningar hér á landi. Bæði gæði hundanna og sýninga hafa aukist með tímanum. Hefur fylgst með labrador retriever á Íslandi allt frá níunda áratug síðustu aldar Hún hefur dæmt labrador retriever alveg frá byrjun og reglulega fram til þessa og fékk aftur tækifæri til þess núna. Bæði fjöldi skráninga og gæði tegundarinnar hafa þróast í jákvæða átt. Hins vegar bendir hún á að það megi passa uppá að tegundin verði ekki of þunglamaleg og mjúk. Hún fékk nokkra slíka meira að segja í meistaraflokki og segir það ekki góða þróun fyrir tegundina. Staðalinn lýsir klassískum vinnuhundi, hvorki of léttum né of þungum að gerð. Það þarf að lesa staðalinn mjög vel ef fólk ætlar sér að rækta, ekki einu sinni heldur oft. Ræktendablinda (kennelblindness) er ekki góð. Franskur bolabítur og snögghærður st. bernard stálu hjarta hennar Hún fékk í hring framúrskarandi franskan bolabít sem hún hefði auðveldlega geta tekið með sér heim, hann mun eiga framtíðina fyrir sér. Hundarnir sem voru í úrslitum voru flestir frábærir fulltrúar sinna tegunda. En sá hundur sem hún mun muna ávallt eftir var snögghærði st. bernard hundurinn. Hann var einstaklega töfrandi hundur og einn sá besti sem hún hefur séð. Sýningin var vel skipulögð og hún verður alltaf jafn heilluð af unga fólkinu sem tekur þátt í nánast öllu sem viðkemur sýningum. Það er svo gott að huga að framtíðinni. Það hefur alltaf verið tekið vel á móti henni og tengiliðir félagsins sáu sérstaklega vel um hana. Hún óskar að lokum félagsmönnum alls hins besta í framtíðinni og færir þakkir fyrir að hafa fengið enn og aftur tækifæri til að dæma hundana hér. -Maija Mäkinen frá Finnlandi Heillandi snögghærður pointer og irish soft coated wheaten terrier Maija var að dæma á Íslandi í fyrsta skipti og þetta var einnig hennar fyrsta heimsókn til landsins. Það sem stóð upp úr á laugardeginum voru snögghærður þýskur pointer og á sunnudeginum irish soft coated wheaten terrier, báðar tegundirnar voru með frábæra unga fulltrúa og heildargæðin voru auk þess mjög góð. Ekki auðvelt að dæma yngri hvolpaflokk Hún var með nokkuð marga hvolpar og ungliða í hringjunum sem voru lofandi og verður spennandi að sjá þá vaxa og dafna en henni finnst oft erfitt að dæma hunda í yngri hvolpaflokknum. Í Finnlandi, hennar heimalandi, eru þau ekki með aldursskipta hvolpaflokka og aldurstakmarkið er sjö mánaða fyrir sýningar. Yngri hvolparnir þurfa að vera orðnir fimm mánaða og eru aðeins sýndir á sérstökum hvolpasýningum eða sérstökum tegundasýningum. Nokkrar ábendingar varðandi russian toy terrier Hún hafði nokkrar ábendingar varðandi russian toy tegundina hér – sumir þeirra voru alls ekki af réttri tegundargerð og margir höfðu slæma skapgerð. Bestu hundar tegundanna í báðum flokkum voru ekki ungir hundar eða sjö ára síðhærður rakki og tíu ára snögghærð tík. Ef ræktendur vanda sig og reyni að betrumbæta tegundina með tilliti til þeirra galla sem hún sá, þá gæti framtíðin orðið betri. Hún var þó hrifin af ungum rakka í hvolpaflokki í síðhærða afbrigðinu, hann var yndislegur. Fólkið í tegundinni var virkilega indælt og færir hún þeim þakkir fyrir samvinnuna í verkefninu. Hún óskar tegundinni alls hins besta í framtíðinni. Fallegir hundar í úrslitum og hæfileikaríkir sýnendur Hundarnir í úrslitahópum voru virkilega flottir og nefnir hún sérstaklega ítalska pointerinn og irish soft coated wheaten terrier. Báðir voru þeir einstaklega góðir fulltrúar fyrir sína tegund og höfðu auk þess gott skap fyrir sýningar og kunnu vel og nutu þess að vinna. Hundurinn af tegundinni shetland sheepdog var líka virkilega fallegur og sýndi sig vel í úrslitunum. Hún var ánægð með hversu sýnendur voru afslappaðir og kurteisir sama hvernig hundunum gekk, starfsfólkið í hringnum hennar var líka faglegt og gott. Íslenska hundaræktarfélagið er á réttri leið og sýnendur hér eru hæfileikaríkir og góðir að hennar mati. Það er ekki auðvelt að vera ræktandi á svo litlu landi sem Ísland er, og með einangrun. Rétt þekking og góð samskipti munu alltaf hjálpa þeim áleiðis. Hún getur ekki annað en óskað ræktendum góðs gengis í framtíðinni. Hún var virkilega hrifin af ferðinni til Íslands en besti hluti hennar var sýningarhelgin, hitta fólkið og dæma hundana. Hún var auk þess ánægð með að hafa fengið að sjá einn hluta okkar fallega lands, Reykjavík. Bestu hundar sýningar: Dómari: Tatjana Urek Bestu ungliðar sýningar: Dómari: Gerard Jipping Bestu öldungar sýningar: Dómari: Moa Persson Ungir sýnendur - yngri flokkur Dómari: Tatjana Urek Ungir sýnendur - eldri flokkur Dómari: Tatjana Urek Bestu ungviði laugardags: Dómari: Moa Persson Bestu ungviði laugardags: Dómari: Auður Sif Sigurgeirsdóttir Bestu ungviði sunnudags: Dómari: Refet Hadzic Bestu hvolpar sunnudags: Dómari: Moa Persson Bestu ræktunarhópar laugardags: Dómari: Refet Hadzic Bestu ræktunarhópar sunnudags: Dómari: Moa Persson Sigurvegarar í tegundahópum:
Comments are closed.
|