Umsjón: Linda Björk Jónsdóttir // Myndir: Ágúst E. Ágústsson. Fyrsta hundasýning ársins var haldin dagana 2. - 3. Mars í reiðhöll Spretts í Kópavogi. Á sýninguna voru skráðir rúmlega 1.100 hundar auk 26 ungra sýnenda. Dæmt var í 7 hringjum báða dagana. Dómarar sýningarinnar að þessu sinni voru þau Annukka Paloheimo og Leni Finne frá Finnlandi, Diane Ritchie Stewart frá Írlandi, Einar Paulsen frá Danmörku, Inga Siil frá Eistlandi, Katharina Round frá Frakklandi, og Liz-Beth Liljeqvist frá Svíþjóð ásamt Auði Sif Sigurgeirsdóttur sem dæmdi unga sýnendur. Tenglar á myndir á facebook síðu HRFÍ: > Laugardagur. > Sunnudagur. > Keppni ungra sýnenda. Úrslit og umsagnir allra hunda á sýningunni. Hér má finna viðtöl við þá dómara sem gáfu kost á því: -Leni Finne Leni hefur dæmt á Íslandi einu sinni áður fyrir um það bil 15 árum síðan, frá síðustu Íslandsheimsókninni hennar hefur tegundunum hér á landi fjölgað umtalsvert. Hún var mjög ánægð með berger de beauce og nefnir að gæðin í coton de tulear hafi verið mjög há. Í mörgum tegundum fannst henni hvolparnir yndislegir. Aðspurður hvort það sé eitthvað sem við þurfum að huga betur að, nefnir hún áhyggjur af skapinu í russian toy terrier, þeir hafi verið mjög feimnir. Hundarnir í keppninni um besta hund sýningar fannst henni framúrskarandi, sýningastaðurinn frábær en nefnir þó að gólfið í sumum hringjum hafi verið ójafnt þótt hennar hringur hafi verið í lagi. Starfsfólkið í hringnum fannst henni frábært og að hún og starfsfólkið hafi skemmt sér vel. Þó hana langi að segja að sýningin hafi verið besti partur ferðarinnar þá átti maturinn sem dómararnir fengu vinninginn. -Liz-Beth Liljeqvist Liz-Beth hefur komið oft til Íslands og dæmt á hundasýningum félagsins. Hún segir að hér sé að finna hágæðahunda, sérstaklega ef hugsað er til þess að Ísland sé eyja og hundar þurfi að fara í gegnum einangrun til að komast til landsins. Hún segir gæðin hafa verið mjög há t.d. í cocker, íslenskum fjárhundi, white swiss shepherd og pug, að auki hafi hún séð marga fallega tibetan spaniel, german shepherd og labrador. Hún nefnir að sumar tegundir sem hún hafi séð hafi verið mjög lofandi en aðrar hafi getað verið betri. Liz-Beth finnst íslenskir ræktendur standa sig mjög vel en mættu kannski hugsa örlítið betur um hvaðan hundar eru keyptir. Hún segir hundarnir í úrslitum hafi verið af háum gæðum, hún var til dæmis mjög hrifin af pomeranian, labrador, german shepherd og st. bernard. Sýningin fannst henni fullkomin og nefnir að félagið sé mjög snjallt í að skipuleggja sýningar, að auki nefnir hún að ræktendur og sýnendur standi sig vel. Hún var í heildina á litið mjög ánægð með heimsóknina til íslands, „okkur finnst gott að koma og við þurfum ekki svona mikla gestrisni, þótt auðvitað okkur líki við hana“ segir hún og þakkar kærlega fyrir helgina. -Annukka Paloheimo Annukka hefur dæmt á Íslandi tvisvar sinnum áður, hún er sérfræðidómari og ræktandi á cavalier. „Sýningarnar ykkar fara mjög fagmannlega og vinalega fram, sem er langbesta blandan. Núna eru tegundirnar, sýnendurnir og dómararnir fleiri auk þess sem sýningin er stærri og meiri“ segir hún. Mikilvægt að hugsa vel um heilsu hundanna Hún hefur verið dómari síðan árið 1987 og haft réttindi á allar tegundir síðan 2010 svo hún hefur rekist á margar súperstjörnur í gegnum tíðina. Hún nefnir að það séu alltaf bæði fínir hundar og svo aðrir sem eru síðri á einhvern hátt. Það sem hún var ánægð með að sjá þessa helgi var að skapgerðin var að jafnaði frábær, feldurinn og liturinn á flestum hundum var af réttri gerð fyrir tegundina. Að auki var hún ánægð með að sjá að hugsað hafði verið um tennur hundanna því í sumum löndum sé það verulega ábótavant. Að stærstu leiti var vöðvaásigkomulag hundanna frábært og 99% hundanna hafi verið hreinir. Hún leggur mikla áherslu á að heilsa og ásigkomulag hundanna sé í lagi, það sé mjög mikilvægt. „Þið hugsið mjög vel um hundana ykkar, og það setur ykkur í efsta sæti!“ segir hún. Ánægð með sigurvegarana í cavalier Annukka dæmdi cavalier og það var 51 hundur skráður. Hún segir að ræktendum hér hafi tekist að ná stærðinni niður, hún muni eftir því þegar hún dæmdi hér fyrst að það hafi verið margir mjög stórir og þungir. Hún nefnir að höfuð á cavalier séu hér rétt eins og annars staðar í heiminum eitthvað sem þurfi að bæta og hún reyni að virða ræktunarmarkmið tegundarinnar þegar kemur að stuttri ennisbrún og hátt ásettum eyrum. „Gætið þess að sækjast ekki eftir röngu hringlaga höfuðlagi og djúpri ennisbrún með mjög stuttu trýni. Sigurvegararnir mínir voru frábærir og í sumum flokkum var mikil samkeppni“ segir hún. Ekki voru margar skráningar í lhasa apso en þar mátti finna gæði. Það kom henni á óvart hversu mikil gæði voru í doberman, ungu hundarnir og hvolparnir sem hún dæmdi voru almennt af háum gæðum og að auki var hún mjög hrifin af pomeranian hundinum sem hún valdi sem besta hund sýningar. Aðspurð hvort það sé eitthvað sem mætti bæta, nefnir hún að sumir hundar hafi verið of grannir og bendir fólki á að skoða hvað sé kjörið ásigkomulag fyrir tegundina og hafa það í huga þegar kemur að fóðrun hundanna. Pomeranian skaraði fram úr Hundarnir í úrslitunum fannst henni af háum gæðum. „Ég hefði elskað að dæma allar tegundirnar, sérstaklega í tegundahópum 8 og 9, þar mátti finna marga fallega sigurvegara“ segir hún. Í keppninni um besta hund sýningar segist hún hafa haft úr nógu að velja. Einstaklega réttan beauceron, yndislegan labrador með jafnvægi í byggingu og pomeranian með kröftugar hreyfingar, byggingu í jafnvægi, rétt hlutföll í líkama og réttan feld. Þetta hafi verið þeir hundar sem hún valdi í efstu 3 sætin. Uppsetning sýningarinnar fannst henni góð, gólfið gott og hringirnir jafnvel of stórir. Þó fannst henni frekar kalt í sínum hring þar sem hún var nálægt innganginum og bendir á að kannski mætti huga að uppsetningu þannig að enginn hringur væri of nálægt svæðum þar sem væru opnar hurðir eða reyna að minnka dragsúg. Það gæti ef til vill aukið þægindi starfsfólks og dómara, hún hafi þó verið vel klædd og því hafi þetta ekki verið mikið vandamál fyrir hana. Starfsfólkið fannst henni allt frábært, en fannst þó ruglandi að það væri skipt um starfsfólk yfir daginn. „Þar sem við vinnum sem teymi er synd að missa einhvern úr teyminu allt í einu, ekki misskilja mig, allt gekk vel með öllu starfsfólkinu og það var hugsað mjög vel um mig í hringnum“ Mikilvægt að bera virðingu fyrir náttúrulegri fegurð hundsins Hún ráðleggur fólki að halda áhugamálinu vinalegu og hundum eins náttúrulegum og mögulegt er. „Berið virðingu fyrir náttúrulegri fegurð hundsins, ekki sækjast eftir hundum sem líta út eins og höggmyndir, haldið ykkur við klassíska hunda.“ Segir hún. Þetta sé líka eitthvað sem sýnendur mættu taka til sín, „enga strekkta tauma, ekki draga hundinn, leyfið hundinum að ganga í lausum taumi þar sem hann ber höfuðið náttúrulega og ekki hlaupa of hratt.“ Hún nefnir að þetta sé vandamál í mörgum löndum og margir dómarar deili þessari skoðun með henni. „Ekki hlaupa, ekki toga í tauminn, þjálfun er leiðin til árangurs.“ Mikilvægi sjálfboðaliða á sýningum „Heilbrigður og sterkur hópur sjálfboðaliða er kjarninn í áhugamálinu okkar! Haldið þeim ánægðum. Í mörgum löndum nú á tíðum eru ekki nægilega margir hringstjórar sem gerir starf dómara frekar erfitt verkefni. Komið vel fram við starfsfólk sýninga og alla aðra sjálfboðaliða. Við erum teymi sem skapar þetta fallega kraftaverk sem hundasýning er. Að auki, takið inn ungt fólk nógu snemma í sýningarskipulagið til að tryggja framhaldið. Sýninganefndin sem er að störfum núna er frábær - til hamingju!“ segir hún. Henni fannst öll ferðin frábær, en bestu stundirnar fannst henni sem kom henni á óvart voru með dómaraefninu og dómaranemanum í hringnum hennar. Hún reyndi að deila sinni reynslu og vitneskju á þeim stutta tíma sem hún hafði. „Það var frábært að verða vitni af áhuga þeirra og eldmóði á tegundunum“ að auki fannst henni yndislegt að dæma cavalier hvolpana! „auðvitað!“ segir hún. -Einar Paulsen Þetta var í fyrsta skipti sem Einar kom til Íslands að dæma. Hann var ánægður með st. bernard og sigurvegarana í miniature schnauzer pipar/salt og hvítum. Gæðin í labrador fannst honum blönduð, sumir hafi verið stórir og sumir mjög feitir. Hann var ánægður með sigurvegarana sem hann valdi og sagði þá af góðum gæðum en tegundina skorti dýpt þegar á heildina er litið. Mikilvægt að sjá hitta hundana áður en þeir eru fluttir inn „Það er mikilvægt á landi eins og ykkar þegar verið er að flytja inn hunda, að ferðast á staðinn og sjá hundana áður en þeir eru sendir til landsins, ekki allir ræktendur eru heiðarlegir“ segir hann. Hann segist hafa haft besta starfsfólkið í heimi og uppsetning sýningarinnar hafi verið frábær, komið hafi verið fram við dómarana eins og þau væru konungborin. Maturinn hafi verið frábær, fólkið vinalegt og hjálpsamt. Hann vonast til að fá að koma aftur til íslands að dæma í framtíðinni. -Katharina Round Þetta var í fyrsta sinn sem Katharina dæmdi á Íslandi, en hún vonar innilega að fá að koma og dæma aftur. Gæðin í sumum tegundunum fannst henni frábær en fannst aðrar valda vonbrigðum. Hún var mjög ánægð með heildargæði í soft coated wheaten terrier og segir að hundurinn sem hún valdi sem sigurvegara tegundahóps númer þrjú gæti unnið hvar sem er í heiminum. Tegundirnar sem stóðu upp úr hjá henni voru: skye terrier, scottish terrier, bedlington terrier, australian silky terrier, samoyed, japanskur spitz og pomeranian. Sérstaklega fannst henni pomeranian standa upp úr og nefnir hún hvolp sem hún hefði getað laumað með sér heim. Hann var valinn besti hvolpur dagsins og að auki var pomeranian sem hún valdi sem besta hund tegundar valinn sem besti hundur sýningar. Ánægð með skapgerð ungu hundanna Jack russell terrier og siberian husky ullu henni vonbirgðum og gæðin í chow chow fannst henni blönduð. Katharina var ánægð með hvolpana og ungu hundana, sér í lagi skapgerðina og að þeir hafi sýnt sig vel. Hún er sannfærð um að þeir muni eiga bjarta framtíð. Hundarnir í úrslitum fannst henni af hæstu gæðum og allir gætu þeir unnið hvar sem er í heiminum. Allir hafi þeir að auki verið frábærlega vel sýndir og snyrtir. Mikilvægt að rækta rétta tegundagerð Hún bendir á að þar sem við höfum ekki tækifæri á að nota undaneldisrakka frá öðrum löndum að það geti takmarkað gæðin í tegundunum. Ef undaneldisrakkar sem til eru á landinu eru af frábærum gæðum þá skili það sér í tegundinni, en ef notaðir eru miðlungs góðir hundar sem eru ekki af réttri tegundagerð þá dali gæði tegundarinnar. Mikilvægt sé að rækta rétta tegundagerð, annars muni við einfaldlega tapa tegundinni. Aðspurð um upplifun hennar af sýningunni þá sagði hún „þið eruð öll að standa ykkur vel, allir voru svo vinalegir, afslappaðir og alltaf til taks. Það var frábær hópur af fróðum dómurum frá mismunandi löndum, þið setjið viðmiðið hátt! Ég dáist innilega af teyminu ykkar, allt mjög ungt fólk og staðráðið í að kynna bestu hundana bæði innanlands sem utan. Allt var frábært, að hitta yndislega dómara, frábæra hunda, ræktendur og sýnendur. Það var vel hugsað um okkur dómarana og það var farið með okkur á flotta veitingastaði til að smakka frábæra íslenska matinn, mér leið mjög dekruð. Ég vildi bara að ég hefði verið aukadag á Íslandi eftir sýninguna til að skoða smávegis af frábæra landinu ykkar sem er svo öðruvísi“ Hún þakkar kærlega fyrir sig og óskar ræktendum, eigendum og sýnendum til hamingju fyrir vel unnin störf. -Auður Sif Sigurgeirsdóttir Þegar mér var boðið að dæma unga sýnendur vissi ég að framundan væri ansi erfitt verkefni vegna þess hve jafnir og ótrúlega hæfileikaríkir krakkarnir eru, bæði í yngri og eldri flokki. Þannig að gæðin komu mér ekki á óvart og gerðu keppnina ótrúlega skemmtilega. Það er engin tilviljun að dómarar hafa oft haft orð á því í gegnum tíðina að unga fólkið okkar sé meðal þeirra hæfileikaríkustu í heiminum. Við erum svo ótrúlega heppin hér á Íslandi með ungmennastarfið okkar sem hefur verið mjög öflugt frá stofnun Ungmennadeildar og veit ég, vegna eigin þátttöku í starfinu, að HRFÍ hefur alltaf staðið við bakið á ungmennunum okkar og lítur á það sem framtíð félagsins. Þetta viðhorf hundaræktarfélaga er gríðarlega mikilvægt og því miður er raunin sú að sum félög gleyma að hvetja og styðja við unga fólkið í hundaheiminum. Hverjir voru helstu styrkleikar ungu sýnendanna okkar og hverju leitar þú að, þegar þú metur krakkana? Það sem mér fannst skemmtilegast að sjá hjá flestum þeirra var hve einbeitt þau voru að hundunum en ekki sjálfum sér, einmitt eins og það á að vera! Fókusinn á alltaf að vera á hundinum. Svo fannst mér gaman að sjá hve mikið þau lögðu upp úr því að reynsla hundsins í hringnum yrði góð. Þau pössuðu upp á að leyfa hundunum að hvíla sig inn á milli á meðan beðið var og léku við þá, klóruðu þeim og nutu þess að vera með þeim. Það sem mér finnst mikilvægt þegar ég dæmi unga sýnendur er að sýnendur nái fram því besta í þeim hundi sem þau sýna hverju sinni. Það gera þau með því að einbeita sér að hundinum, og ná honum á sitt band á skemmtilegan hátt (með látbragði, nammi og jafnvel dóti). Ég vil sjá sýnandann nánast hverfa og vera bakgrunnur hundsins. Hundurinn á alltaf að vera í sviðsljósinu. Mér finnst gaman að skoða tækni sýnenda við að frístilla hundunum, þ.e. hvernig þeir ná að láta hundinn standa vel án þess að nota hendurnar. Þarna skiptir máli að samband sýnanda og hunds sé gott og einnig að sýnandinn hafi gott auga fyrir því hvernig hundurinn á að standa. Samband hunds og sýnanda er gríðarlega mikilvægt og horfi ég mikið til þess þegar sýnendur eru að bíða í röðinni, þ.e. hvað þeir eru að gera með hundinum á meðan þeir bíða. Þetta á ávallt að vera frábær reynsla fyrir hundinn og eitthvað skemmtilegt sem sýnandi og hundur gera saman. Ég á mjög erfitt með að horfa á hund sýndan á vélrænan hátt. Þú lést yngri börnin efstu fjórum sætunum skiptast á hundum, var eitthvað sérstakt þar sem þú varst að leita eftir? Já, ég reyni alltaf að láta þá sem eftir standa skiptast á hundunum vegna þess að þá sé ég svo vel hve hæfileikarík þau eru við að ná ókunnugum hundum á sitt band. Ég gaf þeim nokkrar mínútur til að tengjast nýju hundunum og þá fylgdist ég með þeim í laumi og skoðaði hvernig þau reyndu að tengjast hundunum og hvaða aðferðir þau notuðu. Þegar þú lést eldri börnin í efstu fjórum sætunum skipta um hunda og allir fengu schäfer, að hverju varstu að leita þar? Schäfer-hundar geta verið mjög krefjandi sýningahundar og eru oft mjög húsbóndahollir og oft ekki til í að hlýða strax einhverjum ókunnugum. Þarna skoðaði ég fyrst hvernig þær náðu hundunum á sitt band og svo hvort þær hefðu þekkingu á því hvernig þessi ákveðna tegund væri sýnd. Það skiptir máli að hreyfa Schäfer á réttan hátt. Þeir eiga að vera kröftugir og orkumiklir á hreyfingu og sýnandinn verður að geta hlaupið svo að hundurinn sýni réttar og fallegar hreyfingar. Einnig er uppstilling Schäfer-hunda öðruvísi en margra annarra tegunda. Mér fannst gaman að skoða þetta hjá stelpunum en lét þær reyndar líka skipta um hunda sín á milli áður en þær fengu Schäferana. Þess ber að geta að þær stóðu sig allar frábærlega með hundana! Mig langar að nota tækifærið og þakka þeim eigendum sem lánuðu Schäferana sína í keppnina. Ég kunni virkilega að meta það að geta notað einmitt þessa tegund sem skiptihunda fyrir þær fjórar sem stóðu eftir. Er eitthvað sem þér finnst að krakkarnir mættu huga að til að bæta hæfni sína í hringum eða áttu einhver ráð fyrir þau fyrir framtíðina? Endilega nýtið ykkur öll námskeið sem eru í boði og verið dugleg að sækja ykkur þekkingu hjá sem flestum aðilum. Maður getur alltaf lært meira og lært eitthvað nýtt. Þó maður sé ekki endilega sammála öllu sem kennararnir segja þá er mikilvægt að prófa alltaf nýjar aðferðir og nýta sér það sem manni hentar hverju sinni. Hver veit nema aðferðin, sem maður lærði hjá þessum ákveðna kennara og var kannski ekki alveg að virka á hundinn sem maður var með á námskeiðinu, virki vel á nýja hundinn sem maður tekur að sér að sýna á næsta ári? Mikilvægt að hafa þekkingu á byggingu og hreyfingu hunda Ég var dugleg að spyrja krakkana, sérstaklega í eldri flokki, út í kosti og galla hundanna sem þau sýndu, byggingu hunda og fleira. Ástæðan fyrir því er sú að góðir sýnendur eiga að mínu mati að vera mjög meðvitaðir um kosti og galla þeirra hunda sem þeir sýna til að ná fram því allra besta úr þeim og einnig til að reyna að fela gallana. Til þess að öðlast þessa vitneskju þarf í fyrsta lagi að hafa þekkingu á byggingu hunda og hreyfingum og í öðru lagi að þekkja og skilja standard tegundarinnar sem sýnd er. Þannig að mitt ráð til ungra sýnenda er líka að nýta ykkur alla fyrirlestra og byggingu og hreyfingar hunda þegar þeir eru í boði. Því meira sem maður veit, því klárari verður maður! Eitt ráð að lokum. Endilega verið dugleg að æfa ykkur með krefjandi hunda á æfingum hjá ungmennadeildinni, aðra en þá sem þið ætlið að sýna í keppni ungra sýnenda. Því fleiri hunda og tegundir sem maður prófar, því meiri reynslu og tækni öðlast maður. Það er ekki þar með sagt að hundurinn sem þið sýnið í keppni þurfi að vera krefjandi og erfiður, alls ekki. Nýtið frekar æfingar í að prófa slíka hunda. Bestu hundar sýningar: Dómari: Annukka Paloheimo. Bestu ungliðar sýningar: Dómari: Leni Finne. Bestu öldungar sýningar: Dómari: Liz-Beth Liljeqvist. Bestu ungviði laugardags: Dómari: Diane Stewart-Ritchie. Bestu hvolpar laugardags: Dómari: Katharina Round. Bestu ungviði sunnudags: Dómari: Einar Paulsen. Bestu hvolpar sunnudags: Dómari: Annukka Paloheimo. Ungir sýnendur - yngri flokkur: Dómari: Auður Sif Sigurgeirsdóttir. Ungir sýnendur - eldri flokkur: Dómari: Auður Sif Sigurgeirsdóttir. Bestu ræktunarhópar laugardags: Dómari: Annukka Paloheimo. Bestu ræktunarhópar sunnudags: Dómari: Leni Finne. Sigurvegarar í tegundahópum: Comments are closed.
|