Umsjón: Linda Björk Jónsdóttir & Kristjana Knudsen // Ljósmyndir: Ágúst E. Ágústsson Sýningaárið byrjaði með stæl um liðna helgi, þar sem u.þ.b. 1100 voru skráðir. Að venju var andrúmsloftið gott og spenna í loftinu. Margir frábærir fulltrúar mættu í hringinn en sá sem stóð uppi sem sigurvegari helgarinnar var lhasa apso hundurinn ISJCH Kutani Rufus Astarte Gold. Dómarar helgarinnar voru Anthony Kelly frá Írlandi, Christian Jouanchicot frá Frakklandi, Espen Engh frá Noregi, Lisa Molin frá Svíþjóð, Markku Mähönen frá Finnlandi, Morten Matthes frá Danmörku, Rosa Agostini frá Ítalíu og Sóley Ragna Ragnarsdóttir sem dæmi unga sýnendur. Að venju var frábær þátttaka hjá yngstu kynslóðinni en 35 ungir sýnendur voru skráðir á sýninguna. Hér að neðan má sjá dómaraviðtölin, úrslit og myndir af sigurvegurum helgarinnar. Ekki bárust svör frá: Christian Jouanchicot, Lisa Molin og Rosa Agostini Á tenglunum hér að neðan má finna myndir frá sýningunni á facebook síðu HRFÍ: Keppni ungra sýnenda. Laugardagur. - tegundahópar 2, 3, 4, 5, 6, 8 og 10. Sunnudagur. - tegundahópar 1, 7 og 9. Úrslit og umsagnir sýningar má finna hér. -Morten Matthes frá Danmörku Annað skipti hér á landi sem dómari og fagmennska ríkjandi í bæði skiptin Fyrsta skiptið sem Morten dæmdi hér á landi var fyrir fjórum árum síðan og var hann ánægður með að fá aftur tækifæri til að dæma hér og núna á alþjóðlegu norðurljósasýningunni fyrstu helgina í mars á þessu ári. Síðast þegar hann dæmdi hér á landi var það á útisýningu sem hann tekur fram að hafi verið framkvæmd af mikilli fagmennsku og sama hafi mátt segja um þessa sýningu sem var haldin innandyra. Honum fannst tilkomumikið hversu vel svona smátt hundaræktarfélag getur haldið utan um stórar og flottar sýningar. Allt hafi gengið vel fyrir sig og sendir hann kærar kveðjur til sýninganefndarinnar sem hafi unnið frábært starf. Allt hafi verið samkvæmt áætlun, allt frá móttökunni um morguninn og til lokahringsins síðdegis. ,,Kærar þakkir hringstjórar og ritarar, þið voruð mjög hröð og vinnusöm, ein úr hópnum nefndi að hún væri svolítið ryðguð en það var ekki að sjá og var hún alveg jafn góð og aðrir.“ Hann hafði í hring þessa helgina nokkra dómaranema sem hafi verið efnilegir og framtíðin sé björt í gæðum íslenskra dómara og markmiðin sett hátt. Boxer ræktendur þurfa að huga að höfði Þær tegundir sem hann dæmdi þessa helgina voru meðal annars nokkrar úr tegundahóp tvö, í rottweiler voru aðeins tveir skráðir en báðir góðir og sterkir hundar. Hann dæmdi auk þess st. bernard, í síðhærðum mætti aðeins einn, sá hafi verið af góðum gæðum. Fleiri hundar voru skráðir í snögghærðum og flestir þeirra voru af góðum gæðum en það sem þurfi að huga að í þessu tignarlega hundakyni til framtíðar er að passa uppá að bakið sé sterkt og þeir hafi sterka hækil liði. Hann dæmdi einn þýskan pinscher, en fannst hann af góðum gæðum. Í boxer hafi gæðin verið blönduð en sá sem var besti hundur tegundar hafi verið mjög góður. „Boxer ræktendur hér þurfa að einbeita sér betur að höfuðlögun, sérstaklega trýninu sem má ekki verða of stutt og samt sem áður þurfa kjálkarnir að vera sterkir.“ Hann dæmdi tvo newfoundland hunda og fannst gæðin þar góð. Besti hundur tegundar hafi verið ung tík sem hreyfði sig vel. „Tveir bulldog mættu í hringinn og þeir voruð báðir flottir fulltrúar en í sterkari og þyngri kantinum. Fjórir bullmastiff mættu í hringinn og allir voru þeir góðir. Þar hafi verið mjög lofandi hvolpar og tvær mjög fallegar tíkur. Vonandi er góður rakki á landinu af tegundinni fyrir þær. Í risa schnauzer voru heildargæðin góð en það þarf að huga að styrknum. Einn svartur standard schnauzer mætti í hring og var það ungur rakki sem var mjög lofandi. Í standard schnauzer pipar og salt voru tveir mjög lofandi hvolpar sem eiga framtíðina fyrir sér. Besti hundur tegundarinnar kom úr meistaraflokki og var framúrskarandi hundur sem gæti gert það gott á sýningum hvar sem er, sama mætti segja um tíkina sem var besti hundur tegundar af gagnstæðu kyni.“ Hann dæmdi íslenska fjárhundinn og var ánægður með heildargæði tegundarinnar, aðalega að hvolparnir hafi verið frábærir og ungliðarnir mjög lofandi. „Það voru nokkrir með aðeins uppréttar axlir, vinsamlegast hafið það í huga í framtíðinni.“ Besti hundur tegundarinnar hafi verið framúrskarandi hundur úr meistaraflokki, hann myndi sóma sér vel á sýningu hvar sem er og sömuleiðis tíkin sem hann valdi besta hund tegundar af gagnstæðu kyni. „Dobermann var af fínum gæðum og shetland sheepdog voru almennt af mjög háum gæðum, af góðri stærð, dæmigerðri tegundagerð, hreyfðu sig vel og voru í góðum feld. Þeir voru einnig með gott skap og margir þeirra gætu gert það gott á sýningum erlendis.“ Border collie var einnig tegund sem hann fékk tækifæri til að dæma, hann var hissa að sjá svona mikil gæði hér sem hafa virkilega aukist mikið síðan síðast þegar hann dæmdi hér. Hann benti ræktendum þó á að hafa í huga að passa uppá eyrun og eyrnastöðuna. Hann var ánægður með Rough collie, það hafi verið gott að sjá að það er ekki bara verið að einblína á rétt höfuð heldur einnig er greinilega hugað að réttri byggingu sem var góð í tegundinni hér. Björt framtíð hjá bearded collie og dæmigerðir briard Tveir briard mættu í hring og báðir mjög góðir og dæmigerðir. Nokkrir beauceron mættu og sigurvegararnir hafi verið virkilega góðir en á heildina litið þurfi að huga vel að sterku baki og réttri lengd á spjaldhrygg, stöðugum hækilliðum og nægilega góðri vinklun að aftan. Hann dæmdi einnig bearded collie og fannst gæðin þar almennt góð, hvolparnir mjög efnilegir og tegundin eigi bjarta framtíð hér á Íslandi. Honum fannst virkilega gaman að eyða helginni með okkur og fannst mikið til sýnendanna koma sem voru vinalegir, faglegir og komu vel fram við hundana og hafi verið framúrskarandi í allri framgöngu með gott skopskyn. Síðast en ekki síst fannst honum gaman að koma aftur til fallega Íslands og vel var hugsað um hann. „Það væri gaman að fá að koma aftur síðar.“ -Anthony Kelly frá Írlandi Mjög ánægður með ástralska fjárhunda, irish soft coated wheaten terrier og west highland terrier Þetta var í fyrsta skiptið sem Anthony dæmdi hér á landi og var hann ánægður með gæðin í nokkrum tegundum, sérstaklega vill hann nefna að ástralskir fjárhundar, irish soft coated wheaten terrier og west highland terrier voru hreint frábærir og af miklum gæðum. Hann var ánægður með hversu vel hundarnir voru sýndir og hversu gott andrúmsloft ríkti í hringjunum. Umhverfisþjálfun hvolpa sérstaklega mikilvæg og innisvæði erfið í fyrsta skiptið ,,Hvolpar eru alltaf yndislegir og erfitt að velja úr þar.“ Það sem hann tók eftir að þeir voru öruggir í hringnum margir hverjir og auðvelt að skoða þá. ,,Það er mjög mikilvægt að hvolpar fái góða umhverfisþjálfun og það verður að vera hægt að nálgast þá af ókunnugum, það getur verið mjög erfitt fyrir unga hunda þegar þeir eru skoðaðir. Einnig er sýningaþjálfun mikilvæg frá fjögurra mánaða aldri og upp-úr, slík þjálfun er mjög gangleg þegar fram í sækir. Sumir hundar þola illa að vera sýndir á innisvæðum sérstaklega í fyrsta skiptið. En það er alltaf þannig að í sumum tegundum eru gæðin blönduð og það er gaman að tala um há gæði og það er auðvelt að sigta gæðahunda út úr tegundahring sem inniheldur blönduð gæði. Þeir sem rækta hunda sem fá ekki góða dóma á sýningum ættu að horfa á þá sem eru að vinna og reyna að ná þeim stöðlum.“ Góður hópur í lokahring með verðugum fulltrúum Í úrslitahring fannst honum gæðin eins há og á alþjóðlegum sýningum erlendis. Þegar hann skoðaði hvern sigurvegara úr tegundahópunum fannst honum allir hundarnir verðskuldaðir sigurvegarar. ,,Sýningarsvæðið var vel set upp, hringirnir stórir og nægt rými bæði fyrir áhorfendur og sýnendur. Bæði ritarar og hringstjórar voru faglegir, hjálpsamir og frábærir starfsmenn.“ Hann telur einkar mikilvægt að hafa gott fólk með sér í hringnum til að gera vinnuna skilvirkari. Eins fannst honum gæði sumra sýnendana frábær. Reyndir sýnendur þurfa að miðla reynslu sinni og dómarar þurfa tíma fyrir fyrsta dóm Ef það er eitthvað sem hann ætti að ráðleggja ræktendum er að leitast alltaf við að bæta gæði tegundarinnar, enginn hundur sé fullkominn. Sýnendur sem eru með reynslu ættu að vera duglegir að miðla sinni reynslu til hinna sem eru ekki eins reyndir í sportinu. Það þarf að miðla reynslu til að aðrir geti bætt sig. Hundaræktarfélagið sé að vinna frábært starf og mælir hann með að dómarar séu á svæðinu að lágmarki 30 mínútum fyrir fyrsta dóm dagsins og að lykilaðili frá félaginu hitti dómarana áður en þau dæma til að útskýra kerfið og svara þeim spurningum sem þau kunni að hafa. Hápunktur Anthony var að dæma nokkra hágæða hunda hér og upplifa vinsemd og samþykki ákvarðana sem teknar voru í dómum. Annar hápunktur var sú gestrisni sem dómurunum var sýnd. „Hún var ótrúleg“. Þetta var í fyrsta skipti sem hann hefur dæmt hér en yrði á topp fimm listanum hans í heiminum og segist þó hafa dæmt í mörgum löndum. -Markku Mahönen frá Finnlandi Íslendingar á uppleið og hafa tekið framförum Markku hefur nokkrum sinnum dæmt hér áður og honum finnst gæðin hafa aukist í hvert skiptið. „Sigurvegararnir í þetta skiptið voru virkilega góðir margir hverjir í tegundunum. Eins og alls staðar eru gæðin misjöfn, sumar tegundir voru af betri gæðum en aðrar." ,,Margir ungir hundar og hvolpar voru mjög lofandi og verða góðir fulltrúar tegundanna. Það er erfitt fyrir ykkur að halda uppi hundastofnum hér með innflutningi en það er nauðsynlegt til að viðhalda gæðunum.“ Honum fannst margir virkilega fallegir hundar í tegundahópunum og allir hundarnir í keppninni um besta hund sýningar mjög góðir. Hann nefndi að mjög gott andrúmsloft hafi verið á sýningunni og allt hafi farið fram samkvæmt áætlun og ritararnir í hring hafi verið mjög faglegir. Hann ráðleggur Íslendingum að halda áfram á þessari braut og við höfum gert virkilega góða hluti á stuttum tíma með ekki fleiri hundum. Besti hluti ferðarinnar að hans mati var einfaldlega að sjá alla þessa fallegu hunda. -Espen Engh frá Noregi Hundum hefur fjölgað síðan í síðustu heimsókn en gæðin eru svipuð Þetta var í annað skipti sem Espen dæmir hér á landi, en hann dæmdi áður fyrir mörgum árum síðan. Hann segir að hundunum hafi fjölgað mikið hér en gæðin séu svipuð, það var hans tilfinning. Í tegundunum var hann hrifnastur af chow chow, þar hafi verið nokkrir framúrskarandi hvolpar. Í nokkrum öðrum tegundum var hann ekki eins hrifinn og nefnir þá sérstaklega í því sambandi þýska fjárhunda. Hápunktur sýningarinnar var að fá að dæma lokahringinn Hundarnir sem kepptu í keppninni um besta hund sýningar fannst honum virkilega fallegir og þeir sem hlutu sæti hefðu getað verið í sætum í hvaða landi sem er. Auk þeirra fjögurra hunda sem fengu sæti voru þar fleiri sem vel hefðu verðskuldað að fá sæti í úrslitum. Aðspurður um gæði hvolpana og yngri hundana sagði hann að í hreinskili sagt hefðu í þeim efnum verið mjög blönduð gæði. En nokkur ungviði hafi verið lofandi og þá komu tveir til þrír chow chow hvolparnir upp í hugann og að auki yndislegur papillion hvolpur. Ræktendur þurfa að vara sig á sölumennsku á samfélagsmiðlum Hann telur það vera áskorun fyrir okkur á Íslandi að rækta hunda. Erfiðleikarnir við að koma hundum til landsins séu miklir, en það sé líka hægt að líta á það með jákvæðum augum þar sem ætla megi að kostnaðarsamur innflutningur sé vel skipulagður og gerður með rannsóknum og nákvæmni að leiðarljósi. Það þurfi að vera mjög varkár í þessu málum. Ekki skyldi flytja inn hunda sem ekki hafa verið séðir með berum augum eða í það minnsta skal hafa séð foreldra. Í því sambandi nefnir hann Facebook og aðra samfélagsmiðla sem séu orðin útbreidd uppspretta lággæða hunda, það sé auðvelt að breyta myndum í myndvinnsluforritum og settar séu fram yfirborðskenndar upplýsingar. „Hundar eru lifandi verur og raunveruleg dýr og afskaplega ólíkir þeim fantasíum sem birtast í netheiminum þar sem margir velji nú að lifa lífi sínu.“ Fullkomin uppsetning sýningar og framúrskarandi aðstoðarfólk Honum þótti uppsetning sýningarinnar fullkomin og starfsmenn hringsins afar faglegir. Það sé sérstaklega mikilvægt að hafa snjalla ritara og þeir hafi verið það í hans hring og færir hann þeim þakkir sem og hringstjórum. Hann nefndi auk þess að sýnendur hundanna hafi verið færir og það hafi verið eftirtektarvert hvað væru margir góðir sýnendur af yngri kynslóðinni á Íslandi. Það sem hann vill ráðleggja ræktendum er að vinna heimavinnuna sína. Þeir þurfi að ganga úr skugga um að þeir fái aðgang að bestu blóðlínunum og bestu einstaklingunum. Það sé ekki auðvelt og muni fela í sér ferðarlög til að sjá hundana með eigin augum. Besti hluti ferðarinnar fannst honum að hitta gamla vini á Íslandi og auðvitað að sjá hundana. -Sóley Ragna Ragnarsdóttir frá Íslandi Fallegt samband milli sýnenda og hundanna sem þau sýndu „Ég var virkilega ánægð með hvað sýnendur í báðum aldursflokkum stóðu sig vel en þau sýndu mikla hæfni og þekkingu. Framtíð félagsins er svo sannarlega björt með þennan öfluga, unga hóp okkar! Það sem ég var ánægðust að sjá var hvað það var gott og falleg samband á milli allra sýnenda og hundanna þeirra. Þau vönduðu til verka, voru nærgætin við hundana, þolinmóð og létu það ekki slá sig út af laginu þó á móti blési. Enn frekar fannst mér gaman að sjá að sýnendur sýndu hundana á réttum hraða og féllu ekki í gildruna sem margir falla í, sem er að sýna hundana allt of hratt.“ Góður sýnandi eða framúrskarandi sýnandi? Sóley spurði krakkana allskonar spurningar þegar þau voru að sýna, aðspurð hvort hún hafi verið að leita að einhverju sérstöku svarar hún „Ég trúi því að aukin þekking og betri skilningur sé grundvöllur þess að hægt sé að leysa verkefni, sama hvers eðlis það er, svo sómi sé af. Á sama hátt tel ég að mikil þekking og skilningur á „sinni“ tegund og „sínum“ hundi sé það sem greini á milli þess að vera góður sýnandi eða framúrskarandi sýnandi. Ég ákvað því að krefja krakkana töluvert og spyrja mikið, til að fá tilfinningu fyrir því hve vel þau þekktu vin sinn í hinum enda taumsins. Enn frekar man ég að í gamla daga þegar ég var sjálf að keppa í ungum sýnendum, fannst mér ekkert skemmtilegra en að fá dómara sem spurði mann í þaula og lét mann gera allskonar skrítnar æfingar.“ Stundum of strekktir taumar og mikilvægt að hafa þekkingu á tegundinni sinni Allir krakkarnir sýndu frábæra hæfni í hringnum, en er eitthvað sem þau geta haft í huga til að bæta hæfni sína í framtíðinni? „Heilt yfir voru sýnendur í báðum flokkum algjörlega framúrskarandi, sérstaklega þegar kom að tækni. Það voru því smáatriði í þekkingu á tegund, svörum við spurningum og framfylgni fyrirmæla sem helst greindi á milli þeirra sem höfnuðu í sæti og annarra keppanda. Það bar aðeins á því að sýnendur hefðu mátt lesa ræktunarmarkmið tegunda sinna betur, til að geta betur gert skil á einkennum og sögu þeirra. Einnig varð ég vör við að sumir sýnendur fylgdu fyrirmælum ekki nákvæmlega eftir, ég tel þó að stress og taugar hafi spilað þar inn í. Að sama sinni tók ég eftir of strekktum taumum, eflaust önnur afleiðing trekktra tauga. Sjálf er ég með „ofnæmi“ fyrir of strekktum taumum, en það sem flestir gleyma er að það spillir framfótahreyfingum hundsins að strekkja upp haus og háls. Persónulega vil ég því frekar sjá fallegar, réttar og óþvingaðar framfótahreyfingar og líta fram hjá því að hundur lækki haus eða stingi nefi í gólf. Í eldri flokki var ég einnig að horfa eftir því hversu vel sýnendur nýttu plássið í hringum og hversu vel þau sýndu mér, dómaranum, hundinn. Ég lagði því áherslu á að ég sæi vel framfóta- afturfóta- og hliðarhreyfingar hundsins, ásamt því að honum væri stillt upp í passlegri fjarlægð, svo ég sæi bygginu og útlínur hundsins vel. Enn frekar skipti mig sköpum að sjá fallegt og einlægt samband milli sýnanda og hunds, ég fyrirgaf því frekar örlítil mistök í tækni ef samband parsins var framúrskarandi. Helstu ráðin sem ég get gefið þessum flottu krökkum er að halda áfram á sömu braut, enda er félagið greinilega ríkt af efnilegum ungum sýnendum! Ég hvet ykkur til að nýta öll tækifæri til að læra meira um sýningar og ferfættu félaga okkar. Mætið á námskeið, lesið ræktunarmarkmið tegundanna í þaula ásamt öllu ítarefni sem þið finnið. Mætið á vinnu- eða vinnueðlispróf, sjáið hvernig tegundarinnar ykkar hegða sér, hvernig þeir beita sér og vinna. Að lokum vil ég minna ykkur á að við förum á sýningar til að læra, njóta og skemmta okkur. Það kemur sýning eftir þessa sýningu og ég hvet ykkur því til að reyna að skilja stressið eftir fyrir utan hring og muna að njóta ykkar í botn. Ég hlakka til að fylgjast með í hringum næstu ár og áratugi! “ Bestu hundar sýningar: Dómari: Espen Engh frá Noregi. Bestu ungliðar sýningar: Dómari: Christian Jouanchicot frá Frakklandi. Bestu öldungar sýningar: Dómari: Anthony Kelly frá Írlandi. Ungir sýnendur - yngri flokkur: Dómari: Sóley Ragna Ragnarsdóttir frá Íslandi. Ungir sýnendur - eldri flokkur: Dómari: Sóley Ragna Ragnarsdóttir frá Íslandi. Bestu ungviði laugardags: Dómari: Lisa Molin frá Svíþjóð. Bestu hvolpar laugardags: Dómari: Christian Jouanchicot frá Frakklandi. Bestu ungviði sunnudags: Dómari: Espen Engh frá Noregi. Bestu hvolpar sunnudags: Dómari: Rosa Agostini frá Ítalíu. Bestu ræktunarhópar laugardags: Dómari: Espen Engh frá Noregi. Bestu ræktunarhópar sunnudags: Dómari: Markku Mähönen frá Finnlandi. Sigurvegarar í tegundahópun:
Comments are closed.
|