Umsjón: Linda Björk Jónsdóttir. Á síðustu hundasýningu ár hvert heiðrar Hundaræktarfélag Íslands þjónustu- og vinnuhund ársins, og í ár verður síðasta sýning ársins haldin 25. – 26. nóvember í Samskipahöllinni í Kópavogi. Að þessu sinni leitaði Sámur eftir tilnefningum í verkefnið og bárust sex tilnefningar. Fjórir þjónustuhundar voru tilnefndir og tveir afrekshundar. Hér kynnumst við þessum sex hundum sem allir gegna mikilvægu starfi í samfélaginu. Hér kynnumst við hundunum sem allir gegna mikilvægu starfi í samfélaginu. Nú gefst lesendum Sáms kostur á að velja sinn afrekshund og sinn þjónustuhund sem verða heiðraðir á nóvember sýningu félagsins. Valið stendur til 17. nóvember 2023. Afrekshundar eru þeir sem hafa komið að björgun manna eða dýra, hafa liðsinnt einstaklingum með fötlun eða veikindi, eða hafa verið til uppörvunar á einn eða annan hátt. Hundar sem tilnefndir í þessum flokki eru:
Þjónustuhundar eru þeir sem vinna allan ársins hring að þjónustu í samfélaginu, t.d. lögregluhundar, fíkniefnaleitarhundar, tollhundar, björgunarhundar og aðrir sem vinna mikilvæg störf. Hundar sem tilnefndir í þessum flokki eru:
Hundar sem hafa hlotið tilnefninguna Afrekshundur ársins: Max - leiðsöguhundur Max er 4. ára leiðsöguhundur af tegundinni labrador retriever. Umsjónarmaður Max er Már Gunnarsson sem er blindur, 23. ára sundkappi og tónlistarmaður. Max hefur veitt Má aukið ferðafrelsi með sinni góðu og traustu leiðsögn. Már er núna við nám í Bretlandi og hefur Max þurft að venjast nýjum aðstæðum í framandi landi þar sem Már býr núna einn. Hann hefur leyst það verkefni með glæsibrag og hefur ekki brugðist eiganda sínum. Hann fylgir honum í stórborgum Bretlands á borð við London og Manchester, og fylgir honum t.d. um lestarkerfið þar sem Már hefur stundum verið að spila fyrir almenning. Már og Max ferðast til Íslands í sumar- og jólafríum. Max er agaður og rólegur hundur sem er með einstaklega ljúfa lund. Leiðsöguhundar fyrir blint og alvarlega sjónskert fólk veita notendum sínum mikið frelsi og aukið öryggi bæði innandyra sem utan. Þeir eru þjálfaðir til að aðstoða notendur sína við ótal margt í daglegu lífi, svo sem leiða þá fram hjá hindrunum, hjálpa þeim að finna laus sæti og finna ýmsa hluti svo eitthvað sé nefnt. Hrafnhildur Gunnarsdóttir tilnefndi Max sem afrekshund ársins hjá Hundaræktarfélagi Íslands og nefnir að það hafi verið unun að því að sjá þá tvo ferðast um. Tinna - besti vinur og hjálparhundur Tinna eða Svartwalds Germania eins og hún heitir í ættbók er 11. ára svartur dverg schnauzer. Tinna hefur myndað einstakt samband við unga konu, Hrafnhildi Sigurvinsdóttur sem er með fötlun. Þrátt fyrir að Hrafnhildur geti ekki tjáð sig til fulls er hún ekki í nokkrum vandræðum með að segja nafn Tinnu. Hrafnhildur fékk aðstoð frá fólkinu sínu til að setja hugsanir sínar í orð: Ég heiti Hrafnhildur og mig langar að segja ykkur frá vináttu okkar Tinnu. Ég hitti Tinnu fyrst þegar hún var nokkurra vikna gömul og þá strax varð hún uppáhaldið mitt. María, mamma Tinnu er vinkona mín og hún sagði að ég mætti vera mamma hennar Tinnu með henni, það finnst mér dásamlegt því ég get ekki átt hund ein. Mér finnst lífið stundum flókið og erfitt en Tinna gerir allt betra, mér líður alltaf vel með Tinnu minni. María vinkona sendir mér stundum myndbönd af Tinnu og ég get horft á þau aftur og aftur, og það lætur mér líða vel. Okkur Tinnu finnst gaman að fara saman út að labba og líka að kúra saman í layzboy. Þegar við erum að borða, þá veit Tinna að hún fær fullt af mat ef hún er nálagt mínum stól. Tinna er sko besta vinkona mín og ég elska hana svooo mikið. Ég er með fötlun, ég get ekki gert allt það sem mig langar að gera, þess vegna er svona vinkona eins og Tinna ómetanleg. Eigandi Tinnu, María Björg Tamimi tilnefndi Tinnu sem afrekshund ársins hjá Hundaræktarfélagi Íslands. Hundar sem hafa hlotið tilnefninguna Þjónustuhundur ársins: Bylur - löggæsluhundur Löggæsluhundurinn Bylur er 8 ára og af tegundinni labrador retriever. Umsjónarmaður Byls er Snjólaug Eyrún Guðmundsdóttir, lögreglumaður við embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum. Þau Bylur og Snjólaug hafa átt mjög farsælan feril saman og átt stóran þátt í því að leysa bæði stór og smá mál í gegnum árin. Bylur sem er að verða átta ára kemur úr langri línu þjónustu og -veiðihunda. Hann er undan löggæsluhundinum Vinkel og Þoku sem bæði voru miklir afrekshundar. Bylur er þjálfaður í leit að fíkniefnum og skotvopnum auk þess sem hann er þjálfaður til að rekja spor. Hafa þau Bylur og Snjólaug átt þátt í að leysa fjölda mála og uppræta mikið magn fíkniefna. Þau hafa unnið störf sín af mikilli kostgæfni og dugnaði. Þau Snjólaug og Bylur störfuðu fyrstu árin við embætti Lögreglustjórans á Austurlandi en fluttu sig svo á Suðurnesin fyrir rétt um tveimur árum síðan. Auk þess að starfa dags daglega á Suðurnesjunum hafa þau aðstoðað önnur embætti og löggæslustofnanir, og unnið gríðarlega gott starf í gegnum árin. Að því sögðu er það mat okkar hundaþjálfara löggæslustofnananna, lögreglu, tollgæslu og fangelsa, að Bylur sé vel þess verðugur að hljóta titilinn „Þjónustuhundur ársins“. Bylur mun í lok ársins smá saman fara að hægja á ferðinni en Snjólaug hefur undanfarið ár verið í grunnnámi með nýjan hund, Feisty að nafni, sem er af tegundinni enskur springer spaniel en hann er væntanlegur arftaki Byls sem hefur skilað sínu og gott vel. Steinar Gunnarsson, yfirmaður hundamála hjá lögreglunni tilnefndi Byl fyrir hönd Félags löggæsluhunda sem þjónustuhund ársins hjá Hundaræktarfélagi Íslands. Mygluleitahundurinn Hanz Mygluleitahundurinn Hanz er næstum 7 ára og af tegundinni þýskur fjárhundur, innfluttur frá Svíþjóð. Þjálfari hans og eigandi er Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir, hundaþjálfari og sérfræðingur í hegðun hunda. Hanz byrjaði í þjálfun með Jóhönnu sem lögregluhundur á vegum Evrópusambandsins árið 2015. Jóhanna var þá í námi til að taka kennsluréttindi í efnaleit lögregluhunda (leit að lífsýnum, sprengjum, fíkniefnum, vopnum og fólki). Eftir námið æxlaðist það svo þannig að Mannvit verkfræðistofa hafði samband við Jóhönnu og bað hana að þjálfa upp hund til leitar að leyndri myglu í húsum. Þá hafði aldrei verið hundur hérlendis sem þjálfaður var í svoleiðis vinnu. Þar sem Hanzi hafði fengið góðan grunn ákvað Jóhanna að þjálfa hann í þetta sérstaklega. Eftir umfangsmikla þjálfun komu til landsins alþjóðlegir prófdómarar frá þýsku umhverfissamtökunum sem settu upp próf fyrir hann sem hann stóðst villulaust og varð þar með fyrsti hundurinn á Íslandi til að hljóta vottun til leitar að myglu. Hann er eins og staðan er í dag eini hundurinn sem starfar við þetta á landinu. Hanzi hefur á þessum tíma leitað í fjölda húsnæða. Hann hefur leitað í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, vinnustöðum, heimilum, opinberum byggingum og fyrirtækjum. Hann hefur aðstoðað í fjölda tilfella þar sem fólk hefur veikst af myglugró og ekki tekist án hans hjálpar að finna upprunann. Hann er ekki bara fenginn til þess að leita uppi þegar grunur er um myglu, heldur leitar hann eftir að úrbætur hafa verið gerðar ásamt því að fara í skoðanir þó ekki sé grunur sem er til þess fallinn að fylgjast vel með og láta öryggi fólks í fyrirrúmi. Hann hefur fundið uppruna myglu á stöðum sem engum hafði grunað að leita á en fundið og fólk fengið heilsuna á ný með minni tilkostnaði en annars hefði orðið hefði hans ekki notið við. Þeir skipta hundruðum þúsunda fermetrarnir sem hann hefur leitað á þessum árum og alltaf lagt sig fram. „Einstakur vinnuhundur sem hefur verið gaman að fylgja í hvert skipti sem við fáum verkefni. Fyrir utan þetta allt er hann frábær einstaklingur og glæsilegur fulltrúi sinnar tegundar. Hann er sannur, heilsteyptur og ljúfur strákur sem finnst gaman að vinna og leggur sig alltaf hundrað prósent í verkið. Hann er yndislegur heimilishundur sem finnst fátt skemmtilegra en að hlaupa með í hestaferð, aðstoða við að reka hrossin inn eða liggja uppi í rúmi hjá krökkunum. Það eru ágætis eiginleikar að hafa þar sem það styttist í eftirlaunin hans Hanz“ segir Jóhanna. Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir tilnefndi Hanz sem þjónustuhund ársins hjá Hundaræktarfélagi Íslands. Geðræktarhundurinn Leó Leó eða Stekkjardals Ivan Pavlov eins og hann heitir í ættbók er 10 ára labrador retriever. Eigandi hans og þjálfari er Aníta Stefánsdóttir, iðjuþjálfari á sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK). Leó mætir í vinnuna alla daga á göngudeild geðdeildar með Anítu og er mjög mikilvægur fyrir sjúklinga og starfsfólk á sjúkrahúsinu. Hann elskar að vinna fyrir fólkið þar. Leó á sína eigin facebook síðu og þar má finna eftirfarandi texta: Hundar hafa verið hluti af meðferð á geðdeild SAK frá árinu 2017. Í dag er það hann Leó Þórsson Anítuson (Stekkjardals Ivan Pavlov) sem sinnir meðferðinni. Hans helstu bækistöðvar eru í Seli í dagþjónustunni. Leó er níu ára gamall labrador og kom hann til okkar árið 2018. Faðir hans sinnti svipaðri meðferð á Kleppi. Hann var kallaður Kóngurinn á Kleppi og hlaut viðurkenningu hjá HRFÍ fyrir sín störf þar. Helstu kostir Leós eru þættir eins og einlægur áhugi á mat og á högum annarra, sjálfsþekking og vitund, framtíðarsýn og hugsjón og ber hann ábyrgð á sínum verkefnum. Hann er viljugur til að þjóna og sýnir auðmýkt í starfi og kemur fram við aðra á jafningjagrundvelli. Hans helstu verkefni innan deildarinnar eru að hlúa að fólki og leggur hann sitt af mörkum þegar kemur að geðrækt. Helsti styrkleiki Leós er núvitund. Hann er einstaklega lunkinn við það. Mannfólkið er óþarflega mikið statt í fortíð og framtíð sem vekur oft upp hugsanir og tilfinningar sem það gjarnan gengur inn í og skapar vanlíðan. Leó er hins vegar ötull í því að vera staddur í núinu og hjálpar fólki með að gera slíkt hið sama með nærveru sinni, klappi, knúsi og leik bæði í hópastarfi og á einstaklingsgrundvelli. Hann fer með fólk í göngutúra og styrkir það í að njóta náttúrunnar og hreyfa sig, fer í heimsóknir í Grófina þar sem hann er alltaf velkominn og stundum á kaffihús. Dæmi eru um að fjölskyldur inniliggjandi einstaklinga hafi komið og farið með Leó í göngutúra sem og einstaklingar. Starfsfólk sem hefur átt erfiðan dag í vinnunni hefur stundum komið og tekið núvitundaræfingu með Leó. Það má því segja að hann sé sannur leiðtogi í lífi og starfi. Leó hefur eflt þjónustustig deildarinnar með nærveru sinni. Hann mætir alltaf glaður til vinnu og sýnir það með líkamstjáningu í formi hoppi og skoppi. Hann á orðið nokkra staði í húsinu þar sem leynist nammi og veit alveg hvar það er og hverjir eru líklegir til að gefa honum eitthvað að borða. Hann hefur hlotið viðurkenningu sem starfsmaður ársins á geðdeildinni. Leó er einn af okkur og erum við afar þakklát fyrir hann. Facebook síða Leós: https://www.facebook.com/profile.php?id=100076163203840 Erla Heiðrún Benediktsdóttir tilnefndi Leó sem þjónustuhund ársins hjá Hundaræktarfélagi Íslands. Skotta - þjónustuhundur
Skotta eða Norðan Heiða Svartaþoka Skotta er 7 ára og af tegundinni flat-coated retriever, hún er fyrsti vottaði þjónustuhundurinn á Íslandi. Eigandi hennar og þjálfari er Gunnhildur Jakobsdóttir, iðjuþjálfari hjá Æfingastöðinni sem er miðstöð þjónustu og þekkingar í hæfingu og endurhæfingu fyrir börn og ungmenni. Skotta er ofboðslega vinnusöm, með mikið úthald og hefur einlæga ánægju af því að vera í samskiptum við börn og sýnir það með innilegum móttökum, samvinnu og gleði. Hún unir bæði vel að fá að taka virkan þátt í tímunum sem og að vera passívur þátttakandi. Með virkum verkefnum er átt við þegar krakkarnir kasta fyrir hana, fá hana til að hlaupa kringum keilur, hoppa yfir hindranir, leita að földum hlut eða fá hana til að gera ýmsar kúnstir. Þegar hún er passívur þátttakandi þá er hún viðstödd í sama rými og barnið er að vinna í t.d. við borðvinnu. Þá tekur hún ekki beinan þátt, er bara til staðar og þá er stundum leikið við hana eftir að verkefninu er lokið. Fanney Harðardóttir tilnefndi Skottu sem þjónustuhund ársins hjá Hundaræktarfélagi Íslands. Comments are closed.
|
Loading... |