Labrador hundurinn Vinkill er þjónustuhundur ársins 2024, Vinkill hefur átt farsælan starfsferil sem fíkniefnaleitarhundur fyrir Fangelsismálastofnun, lögreglu og tollinn. Vinkill gat af sér efnileg afkvæmi sem starfa sem þjónustuhundar. Umsjónamaður og þjálfari Vinkils er Elín Ósk Hölludóttir fangavörður. Labradorinn Vinkill er fæddur i apríl 2010, nánar tiltekið á sumardaginn fyrsta. Hann er undan Nelson og Ellu sem bæði störfuðu sem fíkniefna-leitarhundar hjá lögreglu og tolli. Vinkill var nefndur eftir forstjóra Fangelsismálastofnunar, Páli Winkel, þar sem Páli langaði að eiga nafna innan stofnunarinnar. Það varð fljótt ljóst að Vinkill var efnilegur leitarhundur og var fljótlega byrjað að þjálfa hann sem fíkniefnaleitarhund fyrir Fangelsismálastofnun. Hann fór í gegnum grunnnámskeið fíkniefnaleitarhunda ásamt þjálfara sinum og hélt svo áfram i stífri þjálfun. Vinkill kláraði svo grunnþjálfunina og byrjaði að vinna 2011. Eins og áður segir starfaði Vinkill fyrir Fangelsismálastofnun og leitaði fíkniefna i fangelsum landsins. Hann starfaði einnig fyrir lögreglu og toll í ýmsum verkefnum, s.s. á hinum ýmsu útihátíðum, við ýmis fíkniefnamál sem komu upp og fleira. Vinkill var mjög vinnusamur og fannst ekkert skemmtilegra en að vinna. Hann þefaði upp mikið magn fíkniefna í gegnum tíðina og var mjög lunkinn við það. Lífið hjá Vinkli var samt ekki allaf dans á rósum. Hann veiktist mikið í tvígang og var nærri dauða en lífi í bæði skiptin. Þá fótbrotnaði hann einnig á vondum stað en alltaf stóð hann upp aftur og kom til baka í vinnu. Vinkill hætti að vinna síðla árs 2018 og hefur verið á eftirlaunum síðan. Hann er við góða heilsu þrátt fyrir háan aldur. Vinkill var notaður til undaneldis við Labrador tík og úr því goti kom efnilegur fíkniefnahundur sem hlaut nafnið Riffill. Riffill starfaði við hlið föður síns um tíma og tók svo við af honum þegar Vinkill fór á eftirlaun. Hann var líka notaður til undaneldis með Þoku sem var fíkniefnahundur á Norðurlandi vestra og átti 3 rakka, Gonna, Byl og Storm sem allir urðu góðir fíkniefnahundar, Gonni starfaði sem fíkniefnahundur fyrir tollinn, Bylur fyrir lögregluna og Stormur fyrir fangelsi landsins. Einnig var ein tík undan honum leitarhundur í björgunarsveit og því óhætt að segja að hann hafi gefið af sér mjög efnileg afkvæmi. Elín Ósk hefur verið þjálfari og umsjónarmaður Vinkils, Riffils og Storms og er óhætt að segja að þarna fari fagmennska og væntumþykja til starfsins og hundana saman sem hefur skilað þessum glæsilegu og efnilegu þjónustuhundum.
Kristín Jóna Símonardóttir, aðstoðarvarðstjóri fangelsinu Sogni tilnefndi Vinkil sem þjónustuhund ársins. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|