Frá Ungmennadeild HRFÍ // Myndir: Ungmennadeild HRFÍ. Dagur Ungmennadeildar HRFÍ var haldinn hátíðlegur í níunda sinn sunnudaginn 25. september í Gæludýr.is á Korputorgi. Börnum á aldrinum 3-5 ára og 6-8 ára gafst tækifæri til að spreyta sig í sýningarhringnum með fjórfætta vini sína en allir þátttakendur fengu rósettur ásamt þátttökuverðlaunum frá Dýrheimum ehf. Einnig var boðið upp á hefðbundna keppni í ungum sýnendum, yngri og eldri flokki, en sýnendum á níunda aldursári var boðið að taka þátt í yngri flokki. Síðast en ekki síst var boðið upp á fullorðinsflokka fyrir 18-34 ára og 35 ára og eldri þar sem þátttakendur kepptu sín á milli um hver væri besti sýnandinn. Það má því með sanni segja að þetta hafi verið skemmtilegur viðburður fyrir alla fjölskylduna. Skráning fór fram úr björtustu vonum en hátt í 90 skráningar bárust frá þátttakendum á öllum aldri! Dómarar voru Hafdís Jóna Þórarinsdóttir (barnaflokkar), Karen Ösp Guðbjartsdóttir (ungir sýnendur) og Erna Sigríður Ómarsdóttir (fullorðinsflokkar) og færir deildin þeim bestu þakkir fyrir.
Deildin þakkar einnig Dýrheimum ehf. fyrir frábær verðlaun og þátttökuverðlaun, Gæludýr.is fyrir gestrisnina, Melabúðinni fyrir glæsilega vinninga í fullorðinsflokkum og öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við undirbúning, tóku þátt eða mættu til að fylgjast með þessum skemmtilega viðburði. Deildin mun svo sannarlega halda áfram að standa fyrir viðburðum sem þessum í framtíðinni og mun gera sitt allra besta til að halda utan um barna- og unglingastarfið og hvetja þau yngstu til að vera með í hundasportinu. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|