Höfundur: Inga Björk Gunnarsdóttir. // Birtist í 3. tbl. 45. árg. desember 2016. Erla Heiðrún Benediktsdóttir og Guðmundur Rúnar Árnason hafa ræktað labrador í 11 ár. Hundar frá þeim hafa staðið sig vel í veiði sem og í annars konar vinnu, t.d.sem leiðsöguhundar, snjóflóðaleitarhundar og hjálparhundar á heimili fyrir geðsjúka. Árið 2015 var Stekkjardalsræktun stigahæsti retriever ræktandinn og í 9.-10. sæti yfir allar tegundir. Erla Heiðrún og Guðmundur Rúnar leggja mikla áherslu á fallegt útlit án þess að fórna neinu í vinnueiginleikum. Þau hafa áhyggjur af breikkandi bili á milli svokallaðra field-trial lína og sýningalína, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Hvenær og hvernig vaknaði áhugi ykkar á hundum og hundaræktun og af hverju heillist þið af ykkar tegund? Hjá Guðmundi vaknaði áhuginn á hundum eftir að hann byrjaði í skotveiði. Þá fann hann að það vantaði hund til að sækja bráð og vera félagi. Labrador varð fyrir valinu þar sem hann uppfyllti það sem hann var að leita að í hundi. Hjá Erlu var það æðsti draumur frá barnæsku að eignast hund en af hvaða tegund hann ætti að vera var kannski ekki stóra málið til að byrja með, heldur aðallega það að eignast hund. Þegar við kynntumst áttum við sitthvora tíkina, Guðmundur labrador-tíkina Irmu (Straumbakka Irma) sem var vel þjálfuð í veiði og algjör snillingur, og Erla átti boxer-tík (ekki HRFÍ tík) en stuttu eftir að við fórum að búa saman þurfti að aflífa hana vegna mikilla veikinda. Við fundum að labradorinn var okkar aðaltegund en við höfum átt fleiri tegundir með, með misjöfnum árangri. Við höfum verið með eitt amerískt cocker got og svo eitt border terrier got ásamt frænku Erlu og núna eigum við eina litla papillon tík. Labradorinn passar best inn í okkar lífsmynstur því þeir eru þægilegir inn á heimili og skemmtilegir í hverskyns þjálfun, aðlagast vel því sem er í gangi hverju sinni á stóru heimili eins og okkar og veita okkur mikla ánægju. Okkur finnst þeir gefa frá sér „væntumþykjustrauma“ og það er dásamlegt. Hvernig varð ræktunarnafnið ykkar til? Ræktunarnafnið okkar er heiti á sumarhúsi fjölskyldu besta vinar hans Guðmundar og gáfu þau okkur leyfi fyrir því að nota þetta nafn. Þetta er yndislegur staður og okkur langaði að ræktunin okkar myndi heita eftir honum – byggja upp gott á góðu. Hverjir hafa haft mest áhrif á ykkur og aðstoðað ykkur mest í hundaræktuninni? Til að byrja með fengum við góð ráð frá reyndum labrador-ræktendum og unnendum hér á landi sem komu okkur svo í samband við ræktendur erlendis. Frá þeim höfum við flutt inn hunda og erum ennþá í miklum samskiptum við þessa ræktendur. Við höfum flutt inn tík frá breskum ræktanda, Gail Dodd með Carriegame ræktun í Englandi, en hún hafði áður selt hund hingað sem við áttum tík undan. En Auður Valgeirsdóttir byrjaði að láta boltann rúlla fyrir alvöru þegar hún kom okkur í samband við John Crook OBE og Saudjie Cross-Crook, sem eru með Balrion weathertop ræktun í Wales, en hjá þeim fengum við rakka sem við fluttum inn ásamt Guðsteini Eyjólfssyni og fluttum síðar sjálf inn tvær tíkur. Hjá þeim kynntumst við Irminu Dudkowiak, sem er með Dolbia ræktunina, en frá henni höfum við fengið þrjár tíkur og einn rakka til láns en hann kom hingað í samvinnu við Miðvalla-ræktun. Stuðningur bæði reyndari og óreyndari ræktenda er ómetanlegur því maður lærir svo lengi sem maður lifir! Á hvað leggið þið mesta áherslu í ræktuninni? Það sem við höfum að leiðarljósi í okkar ræktun er að rækta hamingjusama, heilbrigða og fallega sækja. Hvaða einkenni hefur ykkur fundist erfiðast að rækta í tegundinni?
Mikið er leitast eftir að labrador sýningalínur séu með mjög sterkleg bein, við viljum rækta hunda með miðlungs sterkleg bein og það er kannski það sem okkur hefur fundist erfiðast, þ.e.a.s. að rækta nógu sterkleg bein til að ganga vel á sýningum en jafnframt því viljum við að þeir séu léttir á hlaupum. Hvað hafið þið ræktað marga íslenska-, alþjóðlega- og/eða veiðimeistara? Við höfum ræktað einn íslenskan sýningameistara af labrador-kyni og einn border terrier sem er íslenskur meistari. Hvaða hundur eða hundar úr ykkar ræktun finnst ykkur bera af öðrum? Okkur finnst erfitt að svara þessu en íslenski sýningameistarinn okkar ber kannski af útlitslega séð en við erum líka ofboðslega stolt af leiðsöguhundinum frá okkur og hundinum frá okkur sem er með A-próf í snjóflóðaleit. Við erum ekki minna stolt af hundunum frá okkur sem eru notaðir í veiði og þeim sem er í þjálfun við að vinna sem hjálparhundur á Kleppi. Fyrir okkur er labradorinn svo miklu meira en „bara“ sýninga- og/eða veiðihundur. Eftir hverju farið þið aðallega þegar þið ákveðið að para saman hund og tík? Skipta ættirnar mestu máli, útlit hundanna, heilbrigði, geðslag eða ... ? Í raun allt sem þú nefnir, hundaræktun er ekki svarthvít, maður þarf að vera samkvæmur sjálfum sér og trúa á sjálfan sig og gera sitt besta því það fer ekki alltaf allt eins og maður ætlar sér, enda er um lifandi einstaklinga að ræða. Einu sinni ákváðum við að byrja í raun nánast alveg upp á nýtt og endurnýjuðum alveg tíkarlínuna okkar til að bæta heilbrigðið hjá okkur. Við reynum að skoða kosti og galla undaneldishunda og púsla saman með þá að leiðarljósi, skoða ættbækur, skapgerð og heilbrigði, árangur og fleira. Við veljum svo hvolpa til að halda eftir sem okkur þykja vera lofandi um 6-8 vikna aldur og bíðum spennt eftir að sjá hvernig til hefur tekist í framtíðinni. Hafið þið lent í einhverjum leiðinlegum atburðum með got? Ef svo er hvernig tókust þið á við það? Já, alveg þó nokkrum því miður. Fyrsta gotið okkar gekk ekki vel, tíkin var með 13 hvolpa en aðeins 7 lifðu. Ef hún hefði farið í keisara hefðu hugsanlega 11 lifað en við vorum ung og óreynd og svona fór þetta því miður. Tíkin var 30 klukkustundir að gjóta frá fyrsta til seinasta hvolps. Í öðru labrador-gotinu okkar gaut tíkin vel og eðlilega 10 hvolpum, afneitaði þeim frá fyrstu stundu en leyfði þeim að fara á spena ef við vorum hjá henni. Hún hafði hvorki þörf né löngun til að sinna þeim svo við þurftum að láta hana gefa þeim og hjálpa hvolpunum að losa sig. Þetta hafðist en tók gríðarlega mikið á og kostaði mikla vinnu og lítinn sem engan svefn í langan tíma. Við höfum líka lent í því með innflutta tík að reyna í þrígang að para hana. Hún varð loksins hvolpafull en það kom sýking í legið og hún endaði í keisara þar sem fjórir hvolpar voru löngu dauðir, einn var agnarsmár og drapst á fyrsta degi, einn drapst úr bakteríusýkingu þriggja vikna gamall og einn vegna þess að það óx fyrir vaxtarlínuna í einu beini í báðum afturfótum þegar hvolpurinn var sex mánaða og þá var ein tík eftir sem er ennþá spræk í dag og að verða öldungur. Við komumst að því seinna að tíkin var með vanvirkan skjaldkirtil sem hugsanlega var ástæða alls þessa vesens. Núna í síðasta gotinu hjá okkur varð að fara með tíkina í keisara og legnám og síðan var önnur stór aðgerð vegna samgróninga eftir keisarann. Við héldum að við myndum missa tíkina okkar frá 12 daga gömlum hvolpum en hún er nagli og gafst ekki upp. Eigið þið einhver góð ráð til annarra ræktenda? Ekki gefast upp þó á móti blási og hlusta á aðra því þeir gætu verið með góð ráð. Og það er í lagi að skipta um skoðun! Hvernig hefur ykkur tekist að samræma hundahaldið daglegu lífi í þéttbýlinu? Okkur hefur tekist það bara ágætlega, að við höldum. Við eigum mjög góða nágranna og börnin okkar taka þátt í hundahaldinu með okkur. Til að byrja með nutum við kannski ekki mikils skilnings hjá fjölskyldu og vinum utan hundaheimsins en í dag kippir enginn sér upp við þegar við bætum við hundi á heimilið eða breytum einhverju í sambandi við hundana – og það að ferðast erlendis á hundasýningu þykir ekkert skrítið lengur. Við keyrum oftast út fyrir bæinn og hreyfum hundana þar og við erum með ágæta aðstöðu heima þannig að þetta gengur bara vel. Finnst ykkur ríkja skilningur og umburðarlyndi gagnvart þeim sem eiga nokkra hunda og þeim sem rækta hunda í þéttbýli? Okkur finnst fólk skiptast í fylkingar, að vera annað hvort með eða á móti hundahaldi, en sem betur fer eru þó nokkrir þarna í miðjunni líka. Okkur finnst vanta heilmikið upp á hundamenninguna á Íslandi, það vantar mikið almenna skynsemi, það þarf að gera hunda meira velkomna í hinu daglega lífi en þeir eiga samt ekki heima alls staðar. Eruð þið ánægð með þróun ræktunar á ykkar tegund eða finnst ykkur að ræktendur mættu huga betur að einhverjum atriðum varðandi hana? Við höfum áhyggjur af hversu mikið bil er orðið milli svokallaðra field-trial lína og sýningalína, ekki bara hér á landi heldur um allan heim og bilið fer bara breikkandi. Eigið þið einhverjar óuppfylltar óskir um framtíð ræktunar ykkar eða tegundarinnar í heild? Við erum að mestu leyti ánægð með það sem komið er í okkar ræktun en alltaf má gera betur. Ætli það sé ekki óuppfyllta óskin – að geta bætt það sem er til staðar og hafa gaman að því áfram. Óuppfylltar óskir fyrir tegundina í heild eru fjölmargar en ein mikilvæg er að fólk vinni betur saman í að gera tegundina betri. Er eitthvað sem þið mynduð vilja hafa gert öðruvísi frá því þið fenguð fyrsta gotið? Það eru rétt rúm 11 ár frá fyrsta gotinu okkar. Við höldum að það sé ekki margt sem við vildum hafa gert öðruvísi, allavega ekkert sem hefði breytt sköpum, því einhvern veginn verður maður að læra. Ég held að við höfum orðið víðsýnni og lært að bera meiri virðingu fyrir öðrum ræktendum því maður þarf ekki alltaf að vera sammála öðrum og eins og við sögðum fyrr í viðtalinu þá er í lagi að skipta um skoðun. Að lokum, hvernig mynduð þið vilja að fólk minntist ykkar sem hundaræktenda? Sem sanngjörnum og raunsæjum ræktendum sem gerðum stofninum gott. Við höfum verið heppin með hvolpakaupendur og við erum þakklát fyrir allt sem þeir hafa gert fyrir ræktunina okkar og hundana frá okkur. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|