Höf: Linda Björk Jónsdóttir // Yfirlestur og myndir í eigu Karenar Aspar Guðbjartsdóttur. Petit Basset Griffon Vendéen eða PBGV eiga uppruna sinn að rekja til Vendée svæðisins í vesturhluta Frakklands þar sem þeir hlupu um lausir yfir gróft landslag í samfloti með veiðimönnum og öðrum hundum í hóp þar sem þeir þefuðu uppi bráð; kanínur og önnur smádýr. Hlutverk þeirra var að þefa uppi bráðina og reka hana úr felustað sínum svo veiðimaðurinn vopnaður skotvopni gæti veitt bráðina. Algengt er að hundarnir séu með hvíta týru í enda skottsins og gerði það veiðimönnunum auðveldara fyrir að koma auga á hundana þegar þeir voru á kafi í gróðri. Tegundin er minnst af fjórum tegundum sem kennd eru við Vendéen, en hinar tegundirnar eru Grand Basset Griffon Vendéen, Briquet Griffon Vendéen og Grand Griffon Vendéen. Allar eru þessar hundategundir enn í dag vinsælustu veiðihundarnir í Frakklandi. Í upphafi var sama ræktunarmarkmið fyrir Petit Basset Griffon Vendéen og Grand Basset Griffon Vendéen (GBGV) þar sem eini munurinn á milli tegunda var hæð á herðakamb. Það var svo árið 1950 sem PBGV fékk sitt eigið ræktunarmarkmið, það var þó leyfilegt að para saman PBGV og GBGV til ársins 1977 en þá bannaði franska hundaræktarfélagið blöndun á milli tegundanna. Útlit PBGV er lítill, virkur og öflugur hundur með svolítið langan líkama og ber skottið með stolti. Augun eru stór og dökk með greindarlegum svip og eyrun fíngerð, þakin löngum hárum. Hálsinn er langur, vöðvafylltur og ber höfuðið með reisn. Líkaminn er vöðvafylltur, brjóstkassinn fremur djúpur, baklínan bein og lendin fremur breið. Skottið er hátt ásett, þykkt í skottrót og mjókkar fram í enda. Feldurinn er grófur og ekki of síður, þeir hafa að auki augabrúnir og skegg, sem hefur þann tilgang að vernda hundinn fyrir grófu landslagi. Hæð á herðakamb er frá 34 cm. til 38 cm. Litirnir eru: hvítur og svartur, svartur og brúnn, hvítur og ljósbrúnn og þrílitur en eru oft kallaðir héralitur (hare colour,), úlfalitur (wolf colour), greifingjalitur (badger colour) og villisvínalitur (wild boar colour.). Skapgerð og umhirða PBGV er lýst sem ástríðufullum, hugrökkum veiðihundi sem er góður með börnum og öðrum hundum þar sem þeir voru ræktaðir til að veiða og vinna í hóp. Þeir eru vinalegir gagnvart ókunnugum og duglegir hundar sem búa yfir mikilli orku sem má nýta í leik og starfi og eru stundum kallaðir „glaðværa hundategundin“. Lýsingin í ræktunarmarkmiði tegundarinnar er eftirfarandi: „Devil in the country, angel in the house, that’s our Basset.“ Sem mætti þýða: „Djöfull í sveitinni, engill í húsinu, það er bassetinn okkar.“ Þeir hafa fremur sjálfstæðan persónuleika, geta verið þrjóskir og notað rödd sína frjálslega, þeir gætu því reynst áskorun þegar kemur að þjálfun og er mikilvægt að kenna þeim frá unga aldri að fara eftir fyrirmælum, þrátt fyrir það eru þeir viljugir að læra og vilja allt fyrir eiganda sinn gera. Þar sem orkustig þeirra er fremur hátt líður þeim best ef þeir fá daglegar gönguferðir eða annars konar útrás og henta vel sem ferðafélagar í útvist, fjallgöngur og hjólaferðir. Þeir eru meðfærilegir heimilishundar og hafa mikla aðlögunarhæfni svo þrátt fyrir að ekki sé hægt að hafa ofan af fyrir þeim alla daga með mikilli útivist þiggja þeir annars konar afþreyingu heima fyrir, til dæmis að fá að nota nefið og leita að nammi í húsinu eða í garðinum. Helst af öllu vilja þeir þó vera með fólkinu sínu í daglega lífinu, hvort sem það er í útivist, ferðarlögum eða fá gott knús á sófanum. Rétt eins og með alla hunda er umhverfisþjálfun mikilvæg. Mælt er með að hafa hundana í taum á opnum svæðum þar sem nefið á það til að taka stjórnina. PBGV er almennt talin heilbrigð tegund og lifir að meðaltali í 14 til 16 ár þegar þörfum þeirra er vel sinnt. Feldurinn er langur og strýr og krefst reglulegrar umhirðu og mánaðarlegra baðferða, en þrátt fyrir þéttan feld fara þeir ekki mikið úr hárum og til þess að halda feldinum strýjum þarf að reita hann reglulega. Mælt er með því að þrífa eyrun reglulega til að ekki myndist eyrnabólga. Ekki er krafist heilbrigðisskoðana hjá HRFÍ fyrir pörun. (sept. 2024). PBGV á Íslandi Fyrsti hundur sinnar tegundar á Íslandi var rakkinn Red Hot Chili V. Tum-Tums Vriendjes en hann kom til landsins árið 2013. Hann hefur verið mjög sigursæll í sýningahringnum og unnið sér inn marga titla ásamt því að ná þeim stórkostlega árangri að verða þrisvar sinnum stigahæsti sýningahundur ársins hjá félaginu. Síðan þá hafa verið fluttir inn fjórir hundar að auki til landsins. Í ágúst 2024 fæddist fyrsta got Petit Basset Griffon Vendéen á Íslandi og komust á legg þrír myndarlegir rakkar undan þeim Black Majesty New York og Soletrader Times Square. Annað gotið kom í heiminn í september 2024 undan Black Majesty Shake It Off og Soletrader Times Square þar sem 4 hvolpar komu í heiminn. Myndaalbúm: Heimildir:
https://www.webmd.com/pets/dogs/what-to-know-petit-basset-griffon-vendeen https://www.akc.org/expert-advice/dog-breeds/petit-basset-griffon-vendeen-history/ https://www.orvis.com/petit-basset-griffon-vendeen.html#:~:text=The%20Petit%20Basset%20Griffon%20Vend%C3%A9en%20originated%20in%20the%201600s%20amid,other%20small%20game%20by%20scent. https://www.fci.be/nomenclature/Standards/067g06-en.pdf Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|