Höf: Linda Björk Jónsdóttir. // Myndir: Eigendur nýfundnalandshunda á Íslandi. Nýfundnalandshundar eða „Newfies“ eins og þeir eru stundum kallaðir eru mjög stórir og sterklegir vinnuhundar sem þekktir eru fyrir ljúfa lund og þykja sérstaklega barngóðir. Þeir eru meðal stærstu hundategunda í heiminum. Eins og nafnið gefur til kynna eiga þeir uppruna sinn að rekja til Nýfundnalands í Kanada þar sem þeirra helsta hlutverk var að aðstoða sjómenn, auk þess voru þeir látnir draga kerrur og annan búnað ásamt því að passa upp á fólkið sitt. Deilt er um uppruna tegundarinnar en talið er að hundarnir hafi komið til Nýfundnalands með evrópskum sjómönnum og vinsælasta kenningin leggur til að tegundin hafi orðið til út frá Portuguese Water Dog og Great Pyrenees hundum. Nýfundnalandshundar eru frábærir sundhundar, þeir hafa djúpan brjóstkassa, sundfit á milli tánna og olíukenndan tvöfaldan feld sem heldur á þeim hita á löngum sundferðum. Vegna þess hve sterkir og góðir sundhundar þeir eru, hafa þeir verið notaðir sem björgunarhundar í vatni og hafa bjargað fjölda manns frá drukknun. Útlit Nýfundnalandshundar eru mjög stórir með sterklegan vöðvafylltan líkama og breitt stórt höfuð. Litarhaft er svart á svörtum, og svörtum og hvítum hundum en brúnt á brúnum hundum. Trýnið er nokkuð stutt og laust við hrukkur. Þeir geta haft annað hvort skærabit eða jafnt bit. Augun eru dökkbrún að lit og frekar lítil. Eyrun eru nokkuð lítil, þríhyrningslaga og liggja niður með kinnum. Hálsinn er sterkur, vöðvafylltur og nægilega langur til að bera höfuðið tignarlega. Líkaminn er sterklegur, bakið breitt og beint, lendin vel vöðvafyllt og spjaldhryggur hallandi. Brjóstkassinn er djúpur og rifjahylki vel hvelft. Fætur eru sterklegar og þar sem afturfætur gegna lykilhlutverki hundsins á sundi eða hreyfingu skiptir miklu máli að þær séu vel gerðar. Skottið er breitt við skottrót og nýtist sem stýri hundsins þegar hann er á sundi og þegar hundurinn stendur kyrr liggur skottið niður með fótum. Hreyfingar hundsins eru kraftmiklar með góðri spyrnu og hefur þá ásýnd að hundurinn búi yfir áreynslulausum krafti. Feldurinn er tvöfaldur og vatnsþolinn, ytri hárin eru slétt og í meðallagi löng, undirfeldurinn er mjúkur og þéttur. Hár á höfði eru stutt og fíngerð. Skottið er vel loðið. Til eru þrjú litaafbrigði: svartur, brúnn og hvítur og svartur – stundum kallaður „Landseer“. Hvítar merkingar á brjósti, loppum og í enda skotts eru leyfilegar á svörtum og brúnum hundum. Meðalstærð: Rakkar: 71 cm. á herðakamb / 68 kg. Tíkur: 66 cm. á herðakamb / 54 kg. Skapgerð og umhirða
Nýfundnalandshundar eru þekktir fyrir milt og gott skap. Þeir búa yfir einstakri ljúfmennsku og æðruleysi ásamt því að vera léttir í lund og glaðlyndir. Þeir eru einstaklega barngóðir, almennt góðir með öðrum hundum, treysta fólkinu sínu og bregðast vel við jákvæðri þjálfun. Almennt gelta þeir ekki mikið. Þrátt fyrir ljúfa lund eru þeir prýðilegir varðhundar og eiga það til að setja sjálfan sig á milli fjölskyldunnar og óboðins gests. Eins og með aðrar stórar hundategundir stækka þeir hratt fyrsta árið og þurfa því að borða mikið í takt við það, þegar þeir eru fullvaxnir þurfa þeir minna fóður. Mikilvægt er að passa upp á rétt holdafar og halda þeim í góðri þjálfun. Dagleg hreyfing er ákjósanleg, hvort sem það er sundferð, göngutúr eða fjallganga er nýfundnalandshundurinn til í útiverustund með fjölskyldunni. Meðalaldur þeirra er 8 til 10 ár. Þeir hafa tvöfaldan feld og fara því úr hárum, gott er að bursta yfir feldinn reglulega til að fjarlægja laus hár. Í ræktunarmarkmiði tegundarinnar er fólk hvatt til að klippa ekki feldinn. Rétt eins og með aðrar hundategundir þarf að klippa klær reglulega, passa upp á tannheilsu og halda eyrum hreinum. Þeir eiga það til að slefa og því er gott að þrífa trýnið reglulega með rökum klút. Í reglum um skráningu hunda í ættbók hjá HRFÍ gildir um nýfundnalandshunda „Undaneldisdýr skulu hafa gilt augnvottorð og vera mjaðma- og olnbogamynduð. Lágmarksaldur í mjaðma- og olnbogamyndatöku er 18 mánuðir.“ (Janúar 2025). Tegundin kom fyrst til landsins árið 1993, eitt got kom í heiminn en eftir nokkurt hlé hafa nýfundalandshundar numið land á ný, en búið er að flytja inn nokkra hunda á undanförnum árum og stendur til að rækta tegundina hérlendis. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|