Umsjón: Linda Björk Jónsdóttir Fulltrúar HRFÍ hittu forsvarsmenn Icelandair í gær til að ræða ákvörðun flugfélagsins um að hætta að flytja gæludýr með farþegaflugi frá og með 1.nóvember 2024. Ákvörðun Icelandair kemur ræktendum og öðrum félagsmönnum illa og skapar mikla óvissu varðandi aðgang að ræktunardýrum og heimflutningi hunda, að ónefndum rekstrargrundvelli einangrunarstöðva, en gera má ráð fyrir að um 80 - 90% innfluttra dýra hafi flogið heim með farþegavélum Icelandair. Flestir hundanna ferðast frá Þýskalandi og Norðurlöndum. Forstjóri Icelandair, Bogi Nils Bogason, Ásdís Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta og sjálfbærni og Sigurgeir Már Halldórsson forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Icelandair Cargo tóku á móti fulltrúum HRFÍ. „Við áttum ágætis samtal þar sem sjónarmiðum félagsmanna og miklum áhyggjum af ástandinu var komið til skila. Forstjóri Icelandair, Bogi Nils Bogason, lagði áherslu á að ákvörðun um að kaupa ekki útbúnað í töskurými nýrra farþegavéla félagsins fyrir flutning gæludýra, hafi verið tekin með bæði hagkvæmni félagsins og minnkun kolefnisspors í huga, en búnaðurinn er þungur og kallar á aukna eldsneytisþörf vélanna“ sagði Erna Sigríður Ómarsdóttir, formaður félagsins eftir fundinn. „Þessi ákvörðun setur okkur hundafólk hins vegar marga áratugi aftur í tímann, innflutningsferlið er nógu þungt, erfitt og dýrt fyrir. Að í ofanálag skapist algjör óvissa um flutningsmöguleika þessara fjölskyldumeðlima til landsins er grafalvarlegt mál. Félagsmenn eru ríflega 5.000 í dag og hverjum félagsmanni fylgir hópur, bæði fjölskylda og vinir, sem er annt um hundana. Icelandair hefur árum saman verið tenging okkar við umheiminn ef svo má segja, enda flug eini raunhæfi kosturinn við að flytja hunda til landsins. Staðan er mjög erfið, verði ekki fundinn einhver leið til að koma til móts við okkur hundaeigendur“, sagði Erna. Hún kvaðst hafa lagt áherslu á hversu íþyngjandi þessi ákvörðun væri og kallaði eftir áframhaldandi samtali til að skoða lausnir og nefndi þar nokkra möguleika. Hún vonaðist til að Icelandair endurskoðaði ákvörðun um algert bann við flutningi gæludýra í farþegavélum. „Nýjar vélar eru enn ekki komnar í gagnið að fullu og því ætti enn að gefast tími til að liðka til“, sagði Erna. Ef ákvörðunin stendur óbreytt, verður einungis hægt að flytja gæludýr í cargo hjá Icelandair frá Liege flugvelli í Belgíu og JFK flugvelli í USA, sem er bæði kostnaðarsamt, óheppileg staðsetning og í flestum tilvikum ferðalag sem kallar á aukið álag á dýr og eigendur. Samkvæmt könnun félagsins leyfa SAS, Norwegian, Finnair og Austrian air enn bókun gæludýra í farþegaflug, en flugáætlun þeirra er mjög takmörkuð auk þess sem SAS er þjónustað af Icelandair og eru flugnúmer félaganna oft sameinuð í vélar Icelandair, sem flytja þá ekki hunda. Enn önnur hindrun felst í því að samkvæmt reglum MAST þarf hundur að koma til landsins á dagvinnutíma dýralækna sem heilsufarsskoða hundana við komu þeirra til landsins. Það þýðir að þær fáu vélar sem mögulegar eru til flutnings, hvort sem um er að ræða cargo- eða aðrar vélar, verða að lenda á Keflavíkurflugvelli milli kl. 6 og 17 á þeim örfáum komudögum í mánuði þegar inntaka er í einangrunarstöðvar. Í apríl síðastliðinn fékk MAST fram breytingu á reglugerð um innflutning hunda og katta sem meðal annars felur í sér að ekki er lengur heimilt að flytja gæludýr til landsins í farþegarými flugvéla, en áður var leyfilegt að ferðast þannig með hunda undir 8 kg. að þyngd, í búri sem komst undir farþegasæti. Að sögn MAST höfðu komið höfðu upp tilfelli þar sem farþegar gengu beint út með slík dýr en afhentu þau ekki til einangrunarvistar. Í stað þess að laga ferilinn, var sett algert bann við þeim möguleika. „Eins slæm og þessi ákvörðun var fyrir okkur hundafólk, þá virðist kynning hennar, annað hvort frá MAST eða ISAVIA, hafa tekist svo illa gagnvart flugfélögum sem fljúga hingað til lands, að það ríkir útbreiddur misskilningur um að það sé bannað að fljúga með hunda í farþegavélum, hvort sem er í farþega- eða töskurými, til og frá landinu. Þetta þarf að minnsta kosti að leiðrétta, en allra helst að fá þennan möguleika inn aftur.”, segir Erna um afleiðingar reglugerðarbreytinganna. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|