Höfundur: Cecilie Strømstad, dýralæknir. // Þýðandi: Ásta María Karlsdóttir. Greinin birtist fyrst í Sámi 3. tbl. 45. árg. desember 2016. Hvað er niðurgangur?
Niðurgangur hjá hundum eru ekki bara lausar hægðir, heldur líka hundur sem skítur oftar eða í meira magni þó hægðirnar séu mótaðar. Niðurgangur getur verið skyndilegur, annað hvort lausari, tíðari eða meira magn af hægðum. Langvarandi niðurgangur er þegar breytingar eiga sér stað smám saman eða varir í meira en tvær vikur. Hjá heilbrigðum dýrum viðhaldast venjulegar hægðir með því að þarmarnir, lifrin, gallrásin og brisið vinna saman að því að stýra inntakinu af næringu og vökva í líkamanum, á sama tíma og líkaminn sjálfur vinnur á hugsanlegum bakteríum. Orsök niðurgangs Hvað gerist í líkamanum? Bæði skyndilegur sem og tíður niðurgangur orsakast þegar magn vökva og annað sem er í þörmunum verður meira en ristillinn og þarmarnir ráða við að taka til sín. Ein tegund af niðurgangi orsakast af því að ástand þarmanna er þannig að þeir ná ekki að taka til sín vökvann fyrir líkamann heldur skila honum bara beint í gegn. Þetta kallast osmotískur niðurgangur og gerist auðveldlega þegar niðurbrot næringar raskast. Önnur orsök niðurgangs er þegar rask verður á vökva inntöku og skilum á vökva í gegnum þarmavegginn. Hjá heilbrigðum hundi fer vökvinn léttilega í gegnum þarmavegginn og inntaka vökva er meiri en það sem þarmarnir skila frá sér. Sýking í þarmaveggjunum breytir eiginleika slímhúðarinnar til að flytja vökva og orsakar það að meiri vökvi skilar sér út í þarmana en þeir ráða við að taka inn. Mótun hægðanna ræðst af því hvar í þörmunum sýkingin á sér stað, þetta gæti t.d. orsakast af eiturefnum. Röskun á hreyfifærni þarmanna getur líka stuðlað að niðurgangi. Hvenær á ég að leita til dýralæknis? Fylgjast skal vel með hundinum og rannsaka hann vel. Hvernig er hann venjulega, er hann slappur eða er hann hress og kátur? Mældu hundinn, athugaðu púlsinn og skoðaðu lit slímhúðarinnar í munninum og hversu fljótt liturinn kemur aftur eftir að þú þrýstir á hana með einum putta. Skoðaðu hægðir hundsins, eru þær ljósar, dökkar, fljótandi, slímugar eða er blóð í þeim, hvernig er lyktin af þeim? Nær hundurinn að halda í sér eða fær hann bráðan niðurgang? Niðurgangur getur verið alveg meinlaus en getur líka verið fyrstu einkenni alvarlegs sjúkdóms, það er fleira sem ber að hafa í huga áður en þú leitar til dýralæknis. Hvað getur orsakað niðurgang? » Stress. » Ójafnvægi í þarmaflórunni. » Of stór skammtur af lyfjum eða lyfjaóþol. » Eitrun. » Stíflun í meltingarfærum: aðskotahlutur, æxli, bólgur. » Sýking í meltingarfærum: magabólgur, vírussýking, bakteríusýking eða sníkjudýr, bólgur í ristli eða þörmum. Sjúkdómur: nýrnavandamál, lifrarsjúkdómur, legbólgur, sýking í brisi eða lífhimnu, almennar sýkingar. » Krabbamein í þarmaveggjum eða þarmaslímhúð. Ef hundurinn sýnir eitthvert eftirfarandi einkenna ásamt niðurgangi skal leita strax til dýralæknis: » Minnkuð meðvitund og slappleiki. » Mjög hár hiti og slappleiki. » Greinilegir verkir. » Útþaninn magi. » Hár púls og brúnleit eða mjög ljós slímhúð. Fara skal með hundinn til dýralæknis innan sólarhrings ef: » Hundurinn er með niðurgang og byrjar auk þess að æla. » Blóðflæðið í slímhúðina er lengur en tvær sekúndur að koma aftur eftir að þú hefur þrýst á tannholdið. » Mikið ferskt blóð í hægðum eða svartar hægðir (sem orsakast af gömlu blóði). Slappleiki Til að athuga slímhúðina og blóðflæðið hjá hundinum er þrýst á tannholdið og sleppt og talið 1001, 1002 o.s.frv. Ef það tekur litinn lengri tíma en tvær sekúndur að koma aftur í tannholdið getur það verið merki um þurrk hjá hundinum. Þar sem hundurinn er búinn að vera með niðurgang í einhvern tíma geta þarmarnir orðið slappir, því er ekkert óeðlilegt að það komi ferskt blóð, sérstaklega ef um tíðan niðurgang er að ræða. Þetta er ekki hættulegt ef aðeins er um smá blóð að ræða. Hundurinn skal skoðast af dýralækni ef hann: » Er með niðurgang daglega eða næstum daglega í lengri tíma. » Er með niðurgang sem kemur og fer. » Er með niðurgang af og til og er slappur. » Er með niðurgang af og til og léttist. » Hægðirnar eru ljósar eða illa lyktandi í lengri tíma. Hvað get ég gert þegar hundurinn minn er með niðurgang? Við bráðum niðurgangi er best að gefa þörmunum frið til að jafna sig og halda frá honum mat í sólarhring. Passið samt að hann fái nóg af vökva! Ef hundurinn vill ekki drekka sjálfur skal sprauta upp í hann vatni, t.d. með sprautu. Hundurinn þarf að taka því rólega því hreyfing getur gert niðurganginn verri. Einungis skal fara í stuttar taumgöngur til að leyfa hundinum að tæma sig meðan hann er með í maganum. Munið einnig að margar tegundir af niðurgangi geta verið smitandi þannig að best er að halda hundinum frá öðrum hundum þar til hann er búinn að ná sér. Meltingargerlar (probiotics) svo sem: Pro-kolin, Prolac og Acidophilus geta hjálpað þarmaflórunni að jafna sig fyrr eftir niðurganginn. Þessa meltingargerla má nálgast í apóteki eða hjá dýralækni. Þegar mat hefur verið haldið frá hundinum í sólarhring þarf að passa þegar byrjað er að gefa honum mat aftur að gera það með litlum skömmtum, hálfum dagsskammti er skipt niður í sex minni skammta sem dreift er yfir daginn. Daginn eftir er heilum dagsskammti skipt niður í sex skammta yfir daginn og þriðja daginn er máltíðinni skipt niður í fjóra skammta. Haldið áfram að gefa honum fjóra skammta yfir daginn þar til hundurinn er búinn að jafna sig en að lágmarki í fimm daga. Fyrir hunda sem eiga erfitt með að melta fæðuna rétt er til sjúkrafóður sem hægt er að nálgast hjá dýralæknum. Einnig er hægt að gefa hundinum soðinn fisk eða kjúkling ásamt hrísgrjónum meðan hann er að jafna sig, passið að hann fái engar mjólkur- eða gerjaðar vörur meðan hann er með niðurgang. Veltu því vel fyrir þér hver orsök niðurgangsins geti verið. Smitaðist hann frá öðrum hundi? Varstu að skipta um fóður, skiptirðu of hratt um fóður hjá honum eða þolir hann ekki nýja fóðrið? Hefur hann borðað eitthvað sem hann þolir ekki s.s. rusl eða matarafganga? Það er margt sem þú sem hundaeigandi getur gert til að fyrirbyggja niðurgang og ýtt undir að hundurinn haldist hress. Ef hundurinn fær niðurgang aftur skaltu hafa samband við dýralækni. Það geta verið margar ástæður fyrir því að hann fái viðvarandi niðurgang og því mikilvægt að fá greiningu hjá dýralækni svo hundurinn fái rétta meðhöndlun. Hvernig get ég fyrirbyggt það að hundurinn fái niðurgang? Það er ekki hægt að fyrirbyggja allan niðurgang en þetta getur þú gert til að reyna að koma í veg fyrir það: » Forðastu að hitta veika hunda svo hundurinn þinn smitist ekki. » Ef þú ert að skipta um fóður skaltu gera það yfir viku tímabil með því að blanda gamla fóðrinu við það nýja og þynna gamla fóðrið út með tímanum. » Hundar fá auðveldlega niðurgang við stressandi aðstæður, reyndu því að koma í veg fyrir að hann lendi í þannig aðstæðum. Það er ekki alltaf hægt en þá er hægt að gefa fæðubótarefni, svo sem meltingargerla eða sjúkrafóður til að reyna koma í veg fyrir niðurgang – hafðu samráð við dýralækni. » Passaðu að hundurinn þinn komist ekki í sterkt krydd eða feitan mat, t.d. grillmat. Ef þú ert í vafa hvort hundurinn þinn þurfi að fara til dýralæknis skaltu taka upp símann og hringja og fá álit frá dýralækni. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|