Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) fagnar áformum Ingu Sælands, félagsmálaráðherra, um að endurskoða lög um fjöleignarhús nr. 26/1994, er varða samþykki fyrir hunda- og kattahaldi. Félagið telur núverandi reglur skaðlegar bæði dýraeigendum og samfélaginu í heild og að nauðsynlegt sé að færa þær nær því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum, þar sem réttur gæludýraeigenda er betur tryggður.
Erna Sigríður Ómarsdóttir, formaður HRFÍ, lýsir mikilvægi þessara breytinga: „Á hinum Norðurlöndunum er dýrahald almennt heimilað nema fyrir liggi rökstuddar ástæður fyrir takmörkunum. Það er því brýnt að Ísland fylgi þessum fordæmum til að tryggja velferð dýranna og eigenda þeirra.“ Í samanburði við önnur Norðurlönd er Ísland með eitt strangasta fyrirkomulagið er kemur að samþykki fyrir dýrahaldi í fjöleignarhúsum, þar sem það er háð samþykki 2/3 hluta eigenda. Þessi staða getur leitt til óhóflegra takmarkana fyrir dýraeigendur og skapað aðstæður þar sem meirihluti íbúa getur bannað dýrahald án þess að málefnaleg sjónarmið búi að baki. Erna telur að núverandi fyrirkomulag dragi úr möguleikum einstaklinga til að njóta félagslegra og heilsufarslegra ávinninga sem fylgja samveru við gæludýr. HRFÍ mun fylgjast grannt með þessu brýna hagsmunamáli félagsmanna og vonast til þess að endurskoðaðar reglur muni leiða til aukins réttar hundaeigenda á Íslandi, samfélaginu öllu til heilla. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|