Höfundur: Anja Björg Kristinsdóttir. // Myndir: Henrik Johanson. Greinin birtist fyrst í Sámi 2. tbl. 52. árg. desember 2019. Henrik Johanson er uppalinn í Gautaborg í Svíþjóð. Þar býr hann ásamt sambýlismanni sínum til fjölda ára, Lars Andersson. Henrik hefur aðallega ræktað yorkshire terrier og pekingese hunda í áratugi undir ræktunarnafninu Henrikville. Einnig hefur hann átt og ræktað nokkra meistara af tegundunum chihuahua, pomeranian og cavalier king charles spaniel. Árið 1995 hlaut hann hin virtu Hamilton skjaldar verðlaunin frá Sænska kennel klúbbnum, en Henrik hefur ræktað yfir hundrað meistara. Henrik er einnig virtur FCI dómari á tegundum úr grúppu 3, 9 og 10. Hversu lengi hefur þú verið að rækta hunda og hver er bakgrunnur þinn í hundum? Líf mitt með hundum byrjaði í raun seinni part sjöunda áratugarins. Ég var algjörlega heillaður þegar ég sá og kynntist afghan hundum í fyrsta skipti, bæði vegna innri og ytri fegurðar þeirra. Fyrsti hundurinn minn var því afghan hound sem ég fékk frá Christinu Jernberg sem var með þekkta ræktun sem nefndist El Khyria. Ég hef átt tvo afghan hunda um ævina og þann seinni sýndi ég og gerði að meistara. Hjá Christinu bjó einnig lítill yorkshire terrier hundur að nafni SuCh C.I.B. Virgulus Oops, hundur sem ég bara gat ekki gleymt, og má því segja að hann hafi verið ástæðan fyrir því að ég fékk dálæti á þeirri tegund. Það var svo árið 1970 sem ég fékk minn fyrsta yorkshire terrier hund. Það var tík sem varð fljótlega sýningarmeistari. Ég eyddi næstu 25 árum í að rækta og sýna yorka. Aðal ræktunarhundarnir mínir og undirstaðan í minni ræktun á tegundinni komu frá enskum ræktendum, Deebees, Blairsville og Ozmilion. Ég hef síðan ræktað 50 meistara af tegundinni. Það var svo seint á áttunda áratugnum sem ég fékk fyrsta pekingese hundinn minn. Það var rakki, sá fyrsti sem fæddist undan tík í Englandi sem ég hafði mikið dálæti á og var og er ein af mínum allra uppáhalds, GB Ch Shiarita Cassidy. Alla tíð síðan hefur pekingese tegundin átt huga minn og hjarta. Pekingese ræktunin mín er byggð upp af innfluttum hundum frá Lotusgrange sem var Norsk ræktun og Pekehuis frá Englandi. Einnig nokkrir frá Yakee ræktuninni í Englandi. Hvernig tekst þér að samræma ræktunina og hið daglega líf? Það má segja að sambland af áhuga mínum á hundum, garðvinnu og klassískri tónlist hafi allt saman hjálpað til við að halda lífinu og tilverunni í jafnvægi og gefið henni tilgang. Ég gæti þetta svo sannarlega ekki einn, þannig að án Lars væri Henrikville hundaræktunin ekki eins og hún er í dag. En á okkar yngri árum störfuðum við báðir sem grunnskólakennarar ásamt því að sinna hundum okkar og ræktuninni. Hvaða hundur mundir þú segja að væri mikilvægastur í tegundinni þinni? Heimaland pekingese er Bretland og þaðan koma margir mikilvægir fulltrúar tegundarinnar og ber þá að nefna GbCh Caversham Ku Ku of Yam, GbCH Yu Yang of Jamestown, GbCh Shiarita Cassidy, GbCh Some Man of Lotugrange og GbCh Pekehuis Sir Guy. Það er ómögulegt að velja bara einn! Hvaða hundur eða hundar myndir þú segja að væru þeir mikilvægustu í þinni eigin ræktun? Það eru aðallega tvær tíkur sem hafa verið einstaklega mikilvægar fyrir ræktunina mína á Pekingese. Sú fyrsta er Amber Dream of Lotusgrange, en að baki þessarar tíkar eru margar kynslóðir af Henrikvillemeisturum, þar á meðal Ch Henrikville Singaraja. Í seinni tíð stendur uppúr sem mín besta undaneldistík Ch Henrikville Remember The Odds. Hún hefur gefið mjög fallega hvolpa. Við höfum þó nokkrum sinnum sýnt hana ásamt ræktunarhóp með nokkrum af hennar afkvæmum sem eru öll meistarar, með frábærum árangri. Og hvað varðar rakkana er vert að nefna að ég notaði nokkra fallega rakka frá vinkonu minni Borghild Moens (Hotpoints) sem reyndust vel fyrir mína ræktun og tvo af mínum eigin innfluttu rökkum frá Englandi, það eru þeir Ch Pekehuis Conqueror og Ch Pekehuis Incantation. Þú hefur náð frábærum árangri í þinni ræktun, hvaða augnablik koma upp í hugann? Hápunktarnir okkar hafa alltaf verið sérsýningar sænska pekingese klúbbsins, sem yfirleitt eru dæmdar af breskum sérfræðingum í tegundinni. Fróðlegur og skemmtilegur viðburður. Þegar ég hugsa til baka var það án efa einn okkar merkasta augnablik þegar Henrikville ræktunin fékk Hamilton skjöldinn afhentan frá sænska hundaræktarfélaginu, fyrir árangursríka ræktun á yorkshire terrier og pekingese. Þessi verðlaun eru þau merkustu sem að ræktandi í Svíþjóð getur hlotið og er það mér og okkur mikill heiður. Ræktunin okkar eru sú eina í pekingese tegundinni sem hefur hlotið þessa viðurkenningu. Ég er einnig stoltur af að vera eini sænski dómarinn sem hefur dæmt pekingese á enskum meistarastigs sýningum og hef þegar dæmt tvær slíkar í Bretlandi, og er það mikill heiður í heimalandi tegundarinnar. En að sjálfsögðu er nauðsynlegt að nefna þakklætið sem ég sem ræktandi ber til eigenda hvolpanna ,,minna" sem ég rækta, fyrir að gefa þeim ástrík heimili og þeirra sem hafa lagt vinnu og áhuga í að sýna þá. Hvað skiptir mestu máli að þínu mati, þegar fólk er að hefja ræktun bæði almennt og í þinni tegund sérstaklega? Það skiptir mestu máli að læra og fræðast um tegundina þína í heimalandi hennar. Mikilvægt er að finna kjörinn fulltrúa innan tegundarinnar og ná sambandi og góðum tengslum við ræktendur hunda sem standa uppúr. Stefnan ætti að vera að byrja með það besta sem hægt er að kaupa fyrir peninga. Mér finnst slagorðið „aðeins það besta er nógu gott“ vera nauðsynlegt í þessu öllu saman. Hvað finnst þér vera mikilvægast varðandi got og framtíðarplön í ræktun? Mín meginregla í ræktun er sú að það er afar mikilvægt að þekkja bakgrunn ræktunarhundanna eins vel og mögulegt er. Hvað er á bakvið hundana í ættbókinni nokkra ættliði aftur. Rakkinn og tíkin ættu að bæta hvort annað og eiga því ekki að hafa sömu gallana. Rannsakaðu og ráðfærðu þig við reynda ræktendur. Þú verður alltaf að vera tilbúin í að meta og hugsa ræktun út frá framtíðinni. Ákveða framtíðarplönin og val á ræktunardýrum og hafa einhverja áætlun hvað þú vilt gera. Hvernig velurðu þér hvolp sem þú heldur eftir, eftir hverju leitar þú? Maður verður fyrst og fremst að velja hvolp sem er af réttri tegundartýpu! Þegar kemur að pekingese, fórna ég til dæmis aldrei neinu á kostnað þess að hvolpurinn hafi góð bein og fyllingu. Einnig er afar mikilvægt að hvolpurinn sé með fallegan opinn andlitssvip og að sjálfsögðu heilbrigði. Hvað finnst þér mikilvægt þegar þú elur upp got? Að mínu mati er mikilvægt að halda hvolpunum það lengi heima, eða eins og mögulegt er fyrir ræktanda og nýja eigendur, til að geta valið þann eða þá hvolpa sem henta til áframhaldandi ræktunar og sýninga. Seturðu sjálfum þér markmið í ræktun, gerirðu framtíðarplön langt fram í tímann?
Nær oftast þegar ég kaupi hunda eða held eftir hvolpi úr eigin ræktun þá er ég með plön í huga fyrir að minnsta kosti tvo ættliði fram í tímann. Hvernig er venjulegur dagur hjá þér og hundunum þínum? Hundarnir okkar hafa stöðugan aðgang að stórum og hæðóttum garði, þar sem við búum aðeins fyrir utan Gautaborg. Þeir lifa svo með okkur fjölskyldu sinni innanhús og fá sína daglegu göngutúra. Umhverfisþjálfun ungra hunda er mjög mikilvæg, sérstaklega þegar kemur að pekingese, svo við reynum að sinna því mjög vel. Hvaða skoðanir hefur þú varðandi heilbrigði hunda? Bæði hvað varðar ræktunarhunda og hinn almenna heimilishund. Ég vil að hundur sé hæfur í það sem hann er ræktaður til, og að hundar séu af réttri tegundargerð með tilliti til andlegrar og líkamlegrar heilsu. Hvernig er hundaheimurinn að þróast í þínu landi, Svíþjóð? Því miður eru gotskráningar á hreinræktuðum hundum sem og skráningar á sýningar að fara minnkandi í mörgum tegundum. Til að mynda í Svíþjóð eru um 20 nýskráningar á pekingese á ári og að meðaltali fimm hundar skráðir á hverja sýningu. Það er vonandi að þetta þróist í betri átt á næstu árum. Hverjar eru væntingar þínar og vonir sem ræktandi? Ég hef upplifað alla drauma mína þegar kemur að ræktuninni minni, framtíðin mun aðeins fela í sér örfá úthugsuð got, ef allt gengur að óskum. Hefur þú einhver sérstök ráð fyrir lesendur varðandi feldumhirðu? Þegar ég átti og ræktaði yorkshire terrier var það mikil og regluleg vinna og áskorun að hugsa um feldinn svo rétt væri, enda tegundin sýnd með gólfsíðan silkifeld sem þarf að pakka upp á milli sýninga. Ég grínaðist oft með það að ég sofnaði og vaknaði með burstann í hendinni. Hvað varðar pekingese þá er feldhirðan miðað við yorkie auðveldari, þar sem að sú tegund hefur allt öðruvísi feldtýpu, tvöfaldan feld sem þarf þó að hirða reglulega ef hundurinn er á sýningum til að hann líti sem best út. Svo þegar kemur að hinu u.þ.b. hálfsárs feldlosi þarf feldurinn daglega burstun. Að lokum vill Henrik segja: Vertu alltaf samkvæmur og heiðarlegur við sjálfan þig, þegar kemur að týpu, útliti og heilsu hundanna þinna. Sámur þakkar Henrik kærlega fyrir spjallið og óskar honum og Henrikville áframhaldandi velfarnaðar. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|