Texti: Anne L. Buvik // Þýðandi: Ásta María Karlsdóttir.// Birtist í 3. tbl. 45. árg. desember 2016. Átt þú tík sem þú upplifir allt í einu að umturnist frá einum degi til þess næsta? Hún er fjarlæg, áhugalaus og lítil í sér. Byrjar að gera skrítna hluti svo sem grafa holu undir pallinn eða lætur sig hverfa undir stóla og borð. Hún er lystarlaus og þú ferð að velta því fyrir þér hvað sé eiginlega að. En ef hún allt í einu fer að safna saman böngsum, púðum eða öðrum hlutum t.d. uppþvottabursta og vill ekki að neinn komi nálægt hlutunum sínum er sniðugt að kíkja á spenana hennar. Þeir eru þá gjarnan bleikir og smá bólgnir og úr þeim getur lekur gulhvít mjólk. Og þá kemur það í ljós - hún er gerviólétt! Meginreglan er sú að allar tíkur ganga ímyndaða meðgöngu 6-8 vikum eftir lóðarí. Þetta ástand framkallast af hormóninu prógestrón sem orsakar einkenni, hvort sem tík er hvolpafull eða ekki. Smádýralæknirinn Rannveig Boman segir heimildir sýna að í allt að 40% tilfella fá tíkur einhver en þó mismikil klínísk einkenni ímyndaðrar meðgöngu. Þetta er einn af ókostunum við að eiga tík. Þeir sem eignast hund í fyrsta skipti vilja gjarnan tík því þær eiga að vera auðveldari. En hormónabrengl gerir það að verkum að það er allt annað en auðvelt. Eigendum komið á óvart Samkvæmt dýralæknum er gerviólétta eða ímynduð meðganga ekki endilega eitthvað sem allir hundaeigendur þekkja. Þetta er mjög misjafnt – þeir sem hafa átt tík áður þekkja þetta oft betur. Það er því ekki óalgengt að þeir sem eiga sinn fyrsta hund hringi í dýralækninn þegar tíkin þeirra hefur litla matarlyst, virðist leið og vælir mikið eftir lóðarí. Það er líka þekkt fyrirbæri að tíkurnar fái svo sterk einkenni að eigandinn heldur að tíkin sé í alvöru hvolpafull. Hún leggur sig, fær mjólk í spenana og í sumum tilfellum sýnir tíkin jafnvel fyrstu einkenni sóttar. Það er hægt að útiloka þetta með því að fara með tíkina í sónar eins ættu reyndir ræktendur að sjá hreyfingar í vikunni fyrir got – en það getur samt verið erfitt. óreyndir tíkareigendur halda að gerviólétta sé löngun tíkarinnar til þess að eignast hvolpa og að vandamálið muni hverfa ef henni er leyft að eignast eitt got. Það er alrangt! Ekki vaxandi vandamál Í gegnum fjölmiðla og blogg deilir fólk upplifun sinni af hundahaldi. Því getur það virst þannig að margir deila sömu vandamálum þegar kemur að þessu fyrirbæri. Rannveig Boman vill samt meina það að þetta sé ekki vaxandi vandamál: Það séu fleiri og fleiri farnir að vera virkari með hundana sína og ætlast til þess að geta þjálfað þá og keppt allt árið. Því sjáist svona „vandamál“ oftar innan ákveðinna hundasamfélaga. Ímynduð meðganga hefur alltaf verið til staðar og mun alltaf vera til staðar, ítrekar hún. Tík sem er með sterk einkenni ímyndaðrar meðgöngu, er að sjálfsögðu ekki í neinu formi til að keppa. Tíkin virðist lítil í sér, leið, hljóðhrædd og er ekki ekki viljug til að yfirgefa heimilið og „hvolpana“ sína og því ekki í ástandi til að taka þátt í neinni þjálfun. Ekki er óeðlilegt að eigandinn hafi samband við dýralækni til að athuga hvort eitthvað sé hægt að gera til að meðhöndla ástandið eða hvort það þurfi að gera eitthvað. Tíðahringur tíka
Tíkur lóða venjulega í fyrsta skipti milli 6 og 12 mánaða aldurs og lóða oftast 6. hvern mánuð. Sumar tíkur lóða þó á 3-4 mánaða fresti en aðrar aðeins einu sinni á ári. Tíðahringur tíkarinnar skiptist svo upp í fjögur tímabil sem vara í 180 daga samtals, miðað við að tíkin lóði á sex mánaða fresti. Blæðingatímabilið (proestrus), er tímabil sem hefst þegar tíkinni byrjar að blæða og varir þar til tíkin leyfir pörun. Hvaða áhrif tíðahringurinn hefur á tíkina er mjög einstaklingsbundið, en oftast breytist hegðun þeirra, þær merkja meira og eru þyrstari. Þetta tímabil varir í um það bil 10 daga, en það er ekki algilt. Hormónið estrógen, sem framleitt er í eggjastokkunum, byrjar að aukast rétt áður en blæðingatímabilið hefst og nær hápunkti rétt áður en tíkin er tilbúin til pörunar, hormónið fellur hratt eftir að hápunkti er náð. Ytri kynfæri tíkarinnar bólgna á þessu tímabili en verða ekki mjúk fyrr en í lokin. Til að byrja með er blóðið dökkt og skilar tíkin litlu frá sér, eftir því sem líður á eykst blóðmagnið og í lok blæðingatímabilsins er það orðið ljóst, þunnt og í litlu magni. Egglosunartímabil (oestrus), er það tímabil þar sem tíkin er tilbúin til pörunar. Egglos á sér stað og meðan estrógenið lækkar þá hækkar prógestrónið, sem framleitt er í eggjastokkunum. Það er misjafnt milli tíka hversu lengi egglos varir, það getur verið allt frá fjórum dögum upp í tólf. Eftirgsangmál (diestrus). Allt eftir því hvort tík er pöruð eða ekki þá endist þetta tímabil 60-100 daga. Það er á þessu tímabili sem tíkur geta orðið gervióléttar og fengið legbólgur. Ytri kynfæri tíkarinnar hjaðna en ganga ekki alveg saman. Bæði hjá tíkum sem eru hvolpafullar og þeim sem eru það ekki eru prógestrón gildin í blóðinu hærri en venjulega. Hjá tíkum sem eru hvolpafullar fellur prógestrón gildið rétt fyrir got en hjá öðrum tíkum fellur það hægt og sígandi. Hjá hvolpafullri tík hækkar hormónið prólaktín um miðja meðgöngu og það hækkar svo rétt fyrir got og helst hátt út tímabilið. Hvíldargangmál (antestrus) er það tímabil sem varir þangað til blæðingatímabilið byrjar aftur. Þetta eru oftast um þrír mánuðir, miðað við að tíkin lóði á sex mánaða fresti. Á þessu tímabili sýna rakkar henni engan áhuga og hún hefur engan áhuga á þeim. Ytri kynfærin eru komin aftur í eðlilega stærð, legið hefur minnkað og eggjastokkarnir eru komnir í hvíldartímabil og því eru hormónagildin lág. Þetta getur hjálpað Reyndir hundaeigendur deila þessum ráðum til að hjálpa tík að komast yfir gervióléttu » Taktu „hvolpana“ hennar af henni. » Takmarkaðu aðgang hennar að mögulegu gotbæli. » Ef tíkin er farin að mjólka, minnkaðu þá matarskammtinn hennar. » Passaðu að hún hafi nóg fyrir stafni, bæði hreyfingu og hugarleikfimi. » Ekki „hugga hana“/vorkenna henni eða kúra óeðlilega mikið með henni. » Ekki „mjólka hana“ með því að kreista mjólk úr spenunum. » Vertu vakandi fyrir því að hún er ekki eins og hún á að sér að vera og hlífðu henni fyrir miklu álagi. Mundu þetta er bara hormóna losun, þetta er ekki löngun í hvolpa Jafnar sig að sjálfu sér. Hvenær þarf að meðhöndla ástandið? Ef mjólkurframleiðsla tíkarinnar verður það mikil að hún fer að þróa með sér júgurbólgur þarf að sjálfsögðu að leita til læknis. Annars er þetta ekki sjúkdómur og því líður ástandið hjá á nokkrum dögum hjá flestum tíkum. Með því að auka hreyfingu og koma í veg fyrir það að tíkin liggi fyrir og hugsi bara um „hvolpana“ sína komast tíkurnar yfirleitt mjög auðveldlega yfir þetta ástand. Sumir vilja gelda tíkurnar sínar þar sem þeim finnst vandamálið aukast milli lóðaría, en ímynduð meðganga flokkast ekki sem sjúkdómur og því fellur það ekki undir geldingu á heilsufarslegum grundvelli. Það er misskilningur meðal sumra nýrra hundaeigenda að þetta ástand sé komið til því tíkina langi að eignast hvolpa og því muni vandamálið hverfa þegar tík á eitt got. Þetta er alrangt – gerviólétta tengist tíðahring tíkarinnar og þessi hringur breytist ekki þrátt fyrir það að tíkin gjóti. Reynsla margra ræktenda sýnir að tík sem hefur átt got fær sterkari einkenni, sér í lagi þegar kemur að mjólkurframleiðslu. Hvernig er hægt að meðhöndla gervióléttu? Algengast er að meðhöndla mikla mjólkurframleiðslu með því að gefa tíkunum hormónið Galastop, sem dregur úr mjólkurframleiðslu, annars er engin ákveðin meðhöndlun. Algengustu aukaverkanirnar af hormónadropunum (Galastop) er slappleiki, æla og lítil matarlyst. Dropana skal einungis nota í samráði við dýralækni. Þessa dropa má alls ekki nota á hvolpafullar tíkur, vill dýralæknirinn ítreka! Gelding ekki án vandamála Gelding er varanlega lausnin þegar kemur að gervióléttu, en er það siðferðilega rétt að leggja það á tíkina? Í 9. grein norsku dýraverndunarlaganna segir: „Ekki skal framkvæma aðgerð eða fjarlægja líkamshluta af dýrum nema það sé réttlætanlegt með tilliti til heilsu dýrsins. Það má samt gera viðeigandi ráðstöfun til að merkja dýrið. Að fjarlægja horn eða gelding er leyfileg þegar það er nauðsynlegt með tilliti til velferðar dýrsins eða öðrum sérstökum kringumstæðum.“ Reglugerðin gefur svigrúm til að gelda með tilliti til velferðar dýrsins. Tík sem lóðar þrisvar á ári og fær mikil einkenni gervióléttu í hvert skipti gæti ég réttlætt að yrði geld með tilliti til velferðar hennar og eiganda hennar, segir dýralæknirinn Boman. Ég vil meina það að þetta sé alfarið í höndum eigandans að fara yfir kosti og galla geldingar með sínum dýralækni áður en ákvörðun er tekin. Til eru margar heimildir um ókosti þess að gelda hunda og er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir þeim líka, þess vegna er gelding ekki endilega alltaf lausnin. Geldar tíkur lifa góðu lífi og kemur gelding í veg fyrir að tíkin þrói með sér krabbamein í júgrum og legbólgur síðar á lífsleiðinni. Mér finnst ekkert eitt svar rétt við spurningunni hvort gelding sé lausnin segir Rannveig Boman að lokum. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|