Texti: Inga Björk Gunnarsdóttir. Greinin birtist í 2. tbl. 52. árg. 2019. Endaþarmskirtlar (anal glands) eru ekki umtalsefni sem fólki gæti dottið í hug að ræða yfir kaffibollanum en þó er algengt að hundar fái sýkingu í þá og þá er betra að vita hver einkennin eru og í hverju meðferð er fólgin. Yfirleitt eru kirtlarnir ekki til vandræða en þó lenda sumir hundar í því að fá síendurteknar sýkingar í þá. TILGANGUR KIRTLANNA
Endaþarmskirtlar framleiða og gefa frá sér vökva sem er notaður í þeim tilgangi að merkja yfirráðasvæði og hefur hver hundur sína eigin lykt. Þegar hundurinn skítur fara hægðirnar yfir endaþarmskirtlana og taka með sér lykt sem er einkennandi fyrir viðkomandi hund. Ef hundurinn er heilbrigður þá finnum við enga lykt af þessum vökva en aðrir hundar finna greinilega lykt af honum. Þetta er ástæðan fyrir því að hundar þefa alltaf af afturenda hvers annars þegar þeir hittast – þetta er þeirra leið til að þekkja hvern annan. EINKENNI Kirtlarnir eru við endaþarmsopið, staðsettir um það bil eins og ef klukka væri fjögur og átta. Heilbrigðir kirtlar eru á stærð við græna baun eða minni. Kirtlarnir eiga að tæmast af sjálfu sér við það að hundurinn skítur en þegar þeir tæmast ekki getur það valdið hundinum óþægindum. Kirtilvökvinn myndar kjöraðstæður fyrir bakteríur og því er mikil hætta á ígerð eftir því sem vandamálið ágerist. Í heilbrigðum hundi er vökvinn í endaþarmskirtlunum gulur, gulbrúnn eða brúnn, yfirleitt þunnfljótandi og auðvelt er að tæma kirtilinn. Ef kirtillinn er hinsvegar sýktur þá er innihald hans orðið þykkt, graftarkennt og blóðlitað og ekki hægt að tæma hann alveg án þess að valda hundinum verulegum sársauka og jafnvel skemmdum á kirtlinum. Algengt einkenni er að hundurinn renni sér á rassinum eftir gólfinu. Oft heyrist að fólk haldi að þegar hundurinn rennir sér á rassinum eftir gólfinu eða grasi að hann sé með ormasýkingu en það eru í raun kirtlarnir sem eru að valda hundinum óþægindum. Önnur einkenni eru þau að hundurinn er sífellt að sleikja endaþarmsopið og svæðið þar í kring. Hann á í erfiðleikum með að skíta og vælir jafnvel á meðan. Svæðið er bólgið og rautt og síðar fer að vella út úr kirtlinum illa lyktandi gröftur og blóð. Sársaukinn sem fylgir þessu er svo mikill að jafnvel blíðustu hundar geta bitið frá sér ef svæðið er snert. Stundum eru einu einkennin slæm lykt. Eigandinn heldur jafnvel að hundurinn hafi vellt sér upp úr einhverju og baðar hann, en lyktin fer ekki. Lyktin minnir á úldinn fisk og heldur áfram að loða við hundinn þrátt fyrir bað. MEÐFERÐ Það þarf alltaf að láta dýralækni skoða hundinn ef þið teljið að hann sé með sýkingu í endaþarmskirtlunum því kreista þarf svæðið við kirtlana á vissan hátt til að reyna að tæma þá og í flestum tilfellum er hundinum gefin deyfing og róandi lyf eða jafnvel svæfður. Hundurinn þarf að öllum líkindum að fá verkjalyf í einhverja daga og hugsanlega gæti hundurinn þurft sýklalyf til að klára meðhöndlunina, jafnvel þyrfti að gefa þau í kirtilinn sjálfan. Mjög líklega þarf að losa úr kirtlinum meðan á meðferð og bata stendur og kirtilinn er að tæmast og dýralæknirinn mun kenna eigandanum handtökin við það. Ef ekkert er að gert breiðist sýkingin hratt út og getur valdið alvarlegum skemmdum á endaþarmi og endaþarmsopinu. Ef hundurinn fær síendurteknar sýkingar, eða jafnvel svo slæmar að sýklalyfjagjöf dugar ekki til, gæti á endanum þurft að fjarlægja annan kirtilinn eða báða með skurðaðgerð. Þetta er erfið aðgerð og aðrar lausnir ætti alltaf að prófa áður. Eftir slíka aðgerð geta sumir hundar verið með linar hægðir eða jafnvel misst stjórn á hægðum í eina til þrjár vikur eftir aðgerðina. Þetta gerist vegna tauganna sem stjórna hringvöðva endaþarmsins en þær liggja í gegnum mjúkvefinn sem er við endaþarmskirtlana. Ef sýkingin er alvarleg og útbreidd getur verið erfitt að framkvæma aðgerð án þess að skaða taugarnar. Í langflestum tilfellum gengur þetta til baka og hundurinn nær fullri stjórn á hægðarlosun. Ef ekki þá mun hundurinn eiga í vandræðum með að halda í sér og jafnvel munu hægðir leka stöðugt frá honum. Mjög sjaldan, en gerist þó, þá myndast krabbamein í kirtlunum, venjulega þó bara öðrum. Er það aðeins algengara hjá tíkum en rökkum. Til að greina hvort um er að ræða krabbamein þarf að taka sýni frá svæðinu. Nál er notuð til að draga upp frumur úr æxlinu og þær svo rannsakaðar. Æxlið er svo fjarlægt með skurðaðgerð og næst yfirleitt fullur bati á krabbameininu eftir slíka aðgerð. Það getur líka komið fyrir að sumir hundar losi innihald kirtlana við það eitt að verða hræddir og aðrir eiga við það vandamál að stríða að það er lekur sífellt út lítið magn vökvans þegar þeir hvílast og það getur skilið eftir óþægilega lykt á heimilinu. Ef hundurinn á við þetta vandamál að stríða er möguleiki að láta fjarlægja kirtlana með skurðaðgerð, en eins og fram kom að ofan er aðgerðin hvorki áhættu- né aukaverkanalaus og því þarf að vega og meta kosti og galla vandlega í samráði við dýralækni. ÁSTÆÐUR Það eru nokkrar ástæður sem geta aukið áhættuna á þessu vandamáli. Linar hægðir eru áhættuþáttur því þær þrýsta ekki nógu mikið á kirtlana þegar hundurinn skítur. Kirtlarnir tæmast ekki og þá getur innihald þeirra byggst upp, þykknað og valdið stíflu sem aftur leiðir til sýkingar. Langvarandi húðsýkingar, til dæmis sveppasýkingar, geta ýtt undir þetta vandamál hunda. Fæðuóþol getur verið bein eða óbein ástæða, til dæmis ef hægðir eru of linar vegna óþols við einhverri fæðutegund. Offita er stór áhættuþáttur í vandamálum tengdum endaþarmskirtlum, en hafa ber í huga að offita getur verið fylgikvilli með lötum skjaldkirtli og Cushing´s sjúkdómnum. Í sumum tilvikum sýkingar hefur hundurinn verið með niðurgang eða meltingartruflanir einni eða tveimur vikum áður en einkenni stíflaðs endaþarmskirtils koma í ljós. Sumir hundar fá sýkingu eingöngu einu sinni en aðrir aftur og aftur. Endurteknar stíflur og sýkingar valda örvef sem þrengja göngin enn frekar sem aftur leiðir til þess að meiri hætta er á stíflum. Það er því mikilvægt að skoða hvaða undirliggjandi ástæður gætu legið að baki endurteknum sýkingum. FYRIRBYGGJANDI MEÐFERÐ Gott er að hafa það fyrir reglu að biðja dýralækninn að kíkja á kirtlana þegar farið er með hundinn í eftirlit til dýralæknisins. Varast ber þó að kreista kirtlana nema full ástæða sé fyrir því. Endurteknar tæmingar með kreistingu geta valdið vefjaskaða á kirtlinum sem aftur getur leitt til vandamála í honum. Góð fyrirbyggjandi meðferð er að fylgjast með hægðum hundsins og reyna með öllum leiðum að auka umfang og þéttleika þeirra svo að þær þrýsti á kirtlana við losun. Til að auka trefjamagn fóðursins er hægt að gefa niðursoðið graskersmauk, psyllium trefjar eða fá hjá dýralækninum fóður sem er sérstaklega hannað með þetta vandamál í huga. Of feitir hundar eru í meiri áhættu að fá endurteknar stíflur þar sem kirtlarnir ná ekki að tæmast nógu vel hjá þeim. Ef hundurinn er of feitur þá er mikilvægt að megra hann og viðhalda svo réttri líkamsþyngd. Offita stafar oft af því að hundinum eru gefnir matarafgangar og of margir aukabitar, t.d. verðlaun. Þó ber að hafa í huga að undirliggjandi sjúkdómar eins og latur skjaldkirtill og Cushing´s sjúkdómurinn getur verið ástæðan. Dýralæknir getur hjálpað eigandanum að finna út hvaða undirliggjandi ástæða gæti verið þess valdandi að hundurinn fái endurteknar stíflur og sýkingar. Það gæti gagnast að gefa Omega-3 fitusýrur því að þær eru bólgueyðandi og hjálpa því í þeim tilvikum þar sem undirliggjandi ástæða er bólguviðbrögð í líkamanum, til dæmis langvarandi húðvandamál. Sem betur fer fara langflestir hundar í gegnum lífið án þess að þjást af vandamálum í endaþarmskirtlum. Hins vegar er mikilvægt að hundeigendur þekki einkennin því mikilvægt er að bregðast fljótt við og hefja meðhöndlun sem allra fyrst áður en sýkinging verður orðin það slæm að það þurfi jafnvel að fjarlægja kirtilinn með skurðaðgerð. HEIMILDIR: Yfirlestur Guðríður Eva Þórarinsdóttir, dýralæknir https://en.wikipedia.org/wiki/Anal_gland https://www.glandex.com/pages/anal-gland-information https://dogsfirst.ie/health-issues/anal-glands-in-dogs/ https://www.dog-health-guide.org/analglanddog.html https://vcahospitals.com/know-yourpet/anal-sac-disease-in-dogs https://www.preventivevet.com/dogs/analglands-what-to-do-when-they-are-a-problem https://pets.webmd.com/dogs/anal-sac-disease-dogs https://www.thekennelclub.org.uk/health/for-owners/anal-gland-impaction/ https://www.vetmed.wsu.edu/outreach/Pet-HealthTopics/categories/diseases/anal-sac-disease Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|