Höfundur: Gerður Steinarsdóttir, formaður Cavalierdeildar HRFÍ // Birtist í 3. tbl. 45. árg. desember 2016. Cavalierdeild HRFÍ var stofnuð 14. maí 1995 en þá voru 39 skráðir cavalier hundar hjá félaginu. Fyrsti formaður deildarinnar var María Tómasdóttir og gegndi hún því starfi til ársins 2014. Fyrstu innfluttu tíkurnar til ræktunar komu hingað til lands árið 1991 frá Sperringsgardens kennel í Svíþjóð og árið 1992 komu fyrstu innfluttu rakkarnir frá sama ræktanda. Þessir hundar voru allir í blenheim litabrigðinu. Fyrsta cavalier gotið leit svo dagsins ljós árið 1993. Fyrsti þríliti rakkinn kom hingað til lands árið 1994 og fyrstu þrílitu hvolparnir fæddust 1995. Það sama ár var fyrsta heillita parið flutt inn, ruby tík og black and tan rakki frá Englandi. Cavalierdeildin hefur frá fyrstu tíð haldið vel utan um ræktunina sem og velferð og heilsufar tegundarinnar og sett ræktendum nokkuð strangar reglur að sumra mati. Innan deildarinnar eru starfandi stjórn, ræktunarráð og ýmsar nefndir svo sem göngunefnd og kynningarnefnd. Fyrsta deildarsýningin var haldin í september 1997 en þá voru 47 cavalierhundar sýndir. Síðan þá hafa verið haldnar deildarsýningar að jafnaði á tveggja til þriggja ára fresti og afmælissýningar deildarinnar hafa verið sérlega glæsilegar. Á tíu ára afmæli deildarinnar var t.d. tvöföld sýning og voru um hundrað cavalierar sýndir hvorn dag. Mjög þekktir cavalierræktendur og dómarar hafa dæmt hér, t.d. Mrs. Molly Coaker (Homerbrent), Annukka Paloheimo (Anncourt), Marja Kurittu (Marjaniemen), Mrs. Norma Inglis (Craigowl) og nú síðast Mrs. Veronica Hull (Telvara). Höfum við haft mikið gagn og gaman af þessum sýningum, þar sem dómarar með sérþekkingu hafa tekið út tegundina en því miður er allt of sjaldan sem við fáum dómara með þekkingu á tegundinni á HRFÍ sýningarnar og því eru þessar deildarsýningar mjög mikilvægar fyrir okkur.
Deildin hefur sótt um deildarsýningu næsta sumar, vilyrði hefur ekki fengist þegar þetta er ritað, en ætlunin er einnig að dómarinn muni halda fyrirlestur um tegundina sem gæti gagnast bæði ræktendum og ungu dómurunum okkar sem þegar hafa fengið réttindi til að dæma tegundina og e.t.v. öðrum sem hug hafa á því í framtíðinni. Því miður hefur dregið mjög úr skráningum á sýningarnar hvað sem veldur en heldur minni ræktun hefur einnig verið s.l. þrjú ár heldur en árin á undan en u.þ.b. hundrað cavalierhvolpar líta dagsins ljós árlega. Stofninn stendur mjög vel því reglulega eru fluttir nýir hundar til landsins. Göngunefnd deildarinnar hefur verið vel virk og stendur fyrir göngum einu sinni í mánuði. Einnig er aðventukaffi haldið fyrsta sunnudag í aðventu sem jafnan er vel sótt af eigendum ásamt þeim fjórfættu og þá eru stigahæstu hundar deildarinnar verðlaunaðir. Yfir sumartímann eru lausagöngur en á veturna eru taumgöngur. Í göngunum gefst fólki tækifæri til að kynnast öðrum cavaliereigendum, fá góð ráð og skiptast á skoðunum. Hundarnir fá tækifæri til þess að hitta aðra hunda af sömu tegund auk þess sem göngurnar eru mjög góð umhverfisþjálfun. Nýir cavaliereigendur eru ávallt velkomnir. Fyrir tveimur árum var hvolpa- hittingurinn endurvakinn en hann hafði legið niðri um nokkurra ára skeið. Í maí sl. var einn slíkur haldinn í Sólheimakoti í blíðskaparveðri. Deildin bauð þar upp á grillaðar pylsur fyrir tvífætlinga og ýmis konar góðgæti fyrir hvolpaskottin. Á döfinni er að standa fyrir ýmiss konar námskeiðum og fræðslu fyrir cavalierhunda og eigendur þeirra. Deildin gerði nýlega skoðanakönnun um hvað hinn almenni félagsmaður hefur áhuga á að deildin bjóði upp á í formi námskeiða, fræðslu o.þ.h. Deildin heldur úti vefsíðunni www.cavalier.is og þar má finna mikinn fróðleik um tegundina. Einnig er deildin með tvær síður á Facebook; Cavalierdeild HRFÍ og Cavalierar HRFÍ og þar koma fram upplýsingar um got og aðra viðburði sem eru á vegum deildarinnar. f.h. stjórnar Gerður Steinarsdóttir, formaður. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|