Nýlegar breytingar á reglugerðum um innflutning hunda og katta hafa valdið umtalsverðum áhyggjum meðal gæludýraeigenda og ræktenda hér á landi. Þessar breytingar, sem meðal annars banna flutning hunda í farþegarými flugvéla og takmarkaða möguleika á flutningi hunda í töskurými, hafa leitt til aukins álags og vanlíðan fyrir dýrin sem nú þurfa að ferðast í frakt eða töskurými, oft án nándar við eigendur sína.
Erna Sigríður Ómarsdóttir, formaður HRFÍ, hefur lýst yfir miklum áhyggjum af þessum breytingum: „Þessar aðgerðir eru mikil afturför og samræmast illa meginreglu íslensks réttar um meðalhóf. Að banna flutning hunda í farþegarými án þess að taka tillit til þess hversu vel það hefur gengið hingað til, sýnir vantraust á eigin ferla og starfsfólk flugvallarins.“ Fyrir breytingarnar mátti flytja hunda undir 8 kg. í farþegarými, en sú leið er nú lokuð. Einnig hefur Icelandair tekið ákvörðun um að hætta alfarið að flytja hunda í töskurými farþegaflugvéla, sem gerir stöðuna enn erfiðari fyrir þá sem þurfa að flytja hunda til landsins. HRFÍ er nú að skora á atvinnuvegaráðuneytið og viðeigandi aðila að taka þátt í uppbyggilegu samtali til að endurskoða þessar reglur og finna lausnir sem tryggja hagkvæman og mannúðlegan innflutning hunda. Félagið vonast til að hægt sé að snúa þessari þróun við og koma í veg fyrir að ræktun hunda á Íslandi líði skaða og að smærri hundastofnar missi af nauðsynlegri erfðafjölbreytni. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|