Höf: Anna Lóa Aradóttir & Linda Björk Jónsdóttir. Myndir: Anna Lóa Aradóttir & NordWindStorm - Xoloitzcuintle dog kennel. Xoloitzcuintle, Xolo eða Mexican hairless er ein af elstu hundategundum í heimi og eiga uppruna sinn að rekja til Mexico. Tegundin er ein af „primitive“ tegundunum sem þýðir að þeir hafa ekki breyst mikið frá uppruna sínum. Það sem gerir tegundina frábrugðna flestum öðrum hundategundum í útliti er feldleysi, en þótt flestir þeirra séu feldlausir eru þeir líka til með feld og fæðast hundar með feld í flestum gotum. Þeir tilheyra tegundahópi 5 - Spitz and Primitive types. Forsaga Tegundin á sér langa sögu, Xoloitzcuintle á uppruna sinn að rekja til Mexico og var álitin fulltrúi guðsins Xolotl, en Xolotl hafði það hlutverk að vernda sólina fyrir hættum undirheimanna og er tegundin nefnd eftir honum. Samkvæmt þjóðsögum skapaði guðinn Xolotl hundategundina til að leiðbeina sálum hinna látnu á leiðarenda og var hundunum fórnað og þeir jarðaðir með eigendum sínum. Þetta gerði hundategundina heilaga í menningu frumbyggja. Fornleyfar sýna að Xoloitzcuintle voru óaðskiljanlegur hluti af bæði daglegu lífi og andlegum iðkunum, þeir voru taldir búa yfir lækningarmætti og verndarar sem héldu heimilum sínum öruggum fyrir illum öndum. Þrátt fyrir það var kjötið af Xoloitzcuintle talið góðgæti af Mexíkóskum frumbyggjum og var borðað við sérstaka trúarathöfn. Þetta olli því að tegundin var nálægt útrýmingu. „The Federación Canófila Mexicana“ sem er hundaræktarfélagið í Mexíkó bjargaði þessari fornu tegund og hefur hundaræktafélagið skartað Xoloitzcuintle á merki sínu síðan 1940. Árið 1954 var farið í leiðangur til Mexico í samvinnu við FCI þar sem farið var í að leita að hreinræktuðum hundum af tegundinni og 10 hundar sem voru byggingarlega sterkir Xoloitzcuintle voru notaðir sem grunnurinn í verkefninu sem snerist að því að bjarga tegundinni. Það var svo 1. maí árið 1956 sem Xoloitzcuintle voru viðurkenndir af FCI sem tegund. Það var þó löngu fyrr sem tegundin var viðurkennd í Bandaríkjunum og var tegundin ein af þeim fyrstu til að vera skráð hjá American Kennel Club (AKC), en fyrsti hundur tegundarinnar var skráðir í AKC árið 1887. Það var svo árið 1959 sem tegundin var afskráð hjá AKC vegna þess hve sjaldgæfir þeir voru og tegundin talin í útrýmingarhættu. Xoloitzcuintli Club of America (XCA), opinber móðurklúbbur tegundarinnar, var stofnaður 26. október 1986 til að endurheimta viðurkenningu AKC fyrir tegundina. Þann 13. maí 2008 fékk tegundin svo inngöngu aftur í AKC. Útlit Tegundin er frumstæð í útliti og hefur mótast af þróun í gegnum tíðina. Þeir eru mjög aðlaðandi, grannslegnir og tignarlegir hundar sem eru án ýkja á alla kanta, bæði er varðar hraða, hreyfingar og útlit án þess að virka grófir. Líkaminn er í góðum hlutföllum, bringan er stór og rifjahylkið vel hvelft. Skott og fætur eru langir. Það eru tvö afbrigði í tegundinni, hárlausir hundar og hundar með feld en hundarnir eiga að líta eins út að undanskildum feldi og tönnum. Mikilvægasta einkenni hárlausu hundanna er algjör vöntun, eða næstum algjör vöntun á feldi alstaðar á líkamanum, þeir hafa mjúka og slétta húð. Þeir geta þó haft smávegis af hári á höfði, eyrum, hálsi, fótum og skotti, að auki er næstum alltaf einhver vöntun á tönnum en það er tengt hárlausa geninu. Ekki ætti að draga hund niður á sýningum sem skortir nokkrar tennur þar sem tennur margra hárlausu hundanna hafa ekki djúpar rætur. Hundarnir sem hafa feld eru mjög aðlaðandi, algjörlega snögghærðir með einfaldan mjúkan feld sem liggur þétt að líkamanum, hundarnir eiga að hafa sömu hlutföll og hárlausa afbrigðið en farið er fram á að hundarnir séu fulltenntir og tennurnar séu fullmótaðar og rétt staðsettar. Líkami hundanna er örlítið lengri en þeir eru háir, og tíkur geta verið ögn lengri en rakkar, beinin eru í meðallagi sterk. Höfuðið er sterklegt og þríhyrningslaga séð ofan frá, höfuðkúpan og trýnið eru af svipaðri lengd. Tungan er yfirleitt bleik en stundum með svartar merkingar sem er algengt einkenni tegundarinnar. Varirnar liggja þétt að kjálkum og hundarnir hafa skærabit en jafnt bit er einnig leyft. Augun eru af meðalstærð, möndlulaga, vakandi að sjá með mjög greindarlegan svip. Litur augnanna er mismunandi eftir lit hundsins. Eyrun eru upprétt, löng, stór, fínleg og mjög tignarleg, í ræktunarmarkmiði tegundarinnar er þeim líkt við leðurblökueyru. Hálsinn er grannur, vel vöðvafylltur og langur í hlutfalli við búkinn, hátt borinn og aðeins hvelfdur. Líkaminn er sterklega byggður og baklínan bein, bakið er stutt og sterkt, lendin sterk og vel vöðvafyllt, spjaldhryggur er aðeins hallandi. Undirlínan er tignarleg, kviður vöðvafylltur og aðeins upptekinn. Skottið er langt og þunnt, og þegar hundurinn er á hreyfingu er það borið upp í sveigju en snertir ekki bakið. Skottstaðan ætti að vera framhald af spjaldhryggnum þegar hundurinn er í hvíld. Hundurinn ætti að geta hreyft sig frjálslega með löngum tignarlegum skrefum þar sem höfuð og skott eru borin hátt. Þar sem feldlausa afbrigðinu skortir feld er húðin mjög mikilvæg. Húðin er mjúk, viðkvæm fyrir snertingu og virðist oft vera heit vegna varmaútgeislunar, en þrátt fyrir það er líkamshiti tegundarinnar sá sami og annara hundategunda sem hafa feld. Loðna afbrigði tegundarinnar ætti að hafa feld út um allan líkamann en þó má búast við að lítið sé af hárum á kvið og innan á lærum. Feldurinn ætti að vera stuttur, mjúkur og einfaldur. Einsleit dökk húð/feldur er æskilegur, en þó geta hundarnir verið svartir, svargráir, leirgráir, dökkgráir, rauðleitir, lifrarbrúnir, bronslitaðir eða ljósir, þeir geta að auki haft hvítar merkingar. Genið sem veldur feldleysinu er ríkjandi. Engu að síður fæðast sumir hvolpar með feld. Við pörun ætti að leggja áherslu á að bæði rakki og tík séu feldlaus. Sýnt hefur verið fram á að slík ræktun viðheldur og bætir gæði tegundarinnar. Til að viðhalda erfðafræðilegum fjölbreytileika er heimilt að nota framúrskarandi feldhund í viðurkenndum lit til ræktunar. Ræktun milli tveggja Xoloitzcuintles með feld er óheimil. Xoloitzcuintle með feld sem notaður er til ræktunar verður að vera undan skráðum foreldrum og með að minnsta kosti þrjár kynslóðir af feldlausri til feldlausri ræktun. Tegundin flokkast í þrjár stærðir, frá 3 kg. og upp i 30 kg. Standard stærð: 46 – 62 cm. og 11 – 30 kg. - Vakthundur, selskapshundur. Intermediate stærð: 36 – 45 cm. og 7 – 14 kg. - Vakthundur, selskapshundur. Miniature stærð: 25 – 35 cm. og 3 – 10 kg. – Selskapshundur. Skapgerð, umhirða og þjálfun
Xoloitzcuintle er þögull, rólegur og húsbóndahollur hundur, kátur, vökull og afar greindur. Getur verið tortrygginn í garð ókunnugra en aldrei árásargjarn. Hann er góður vakthundur og frábær félagi. Xoloitzcuintle er viðkvæm sál sem þarf góðlátlegan aga og þolir illa hörku og hárreysti. Hann þarf rólegt umhverfi með yfirvegað andrúmsloft. Getur verið afar góður fjölskylduhundur og góður með ungum börnum og öðrum dýrum ef hann er alinn upp í þannig umhverfi. Daglegir 20 mínútna göngutúrar eru æskilegir. Þeim er almennt illa við vont veður og rigningu, og sækja þá í að vera inni í hlýjunni. Þá hentar vel að veita þeim heilaleikfimi eins og þrautir, púsl og hlýðniæfingar. Þeir vilja vera með eiganda sínum í einu og öllu, hvort sem það er að horfa á sjónvarp eða setja í vél. Persónulegt pláss eiganda getur orðið afar lítið þegar Xoloitzcuintle er kominn á heimilið. Ekki ætti að leyfa ókunnugum að ana að þeim, þá er hætta á því að þeir verði feimnir og óöruggir. Hundarnir þurfa að fá að kynnast fólki á eigin forsendum og á sínum tíma. Húð umhirða þeirra feldlausu getur verið umtalsverð. Þeir þurfa reglulega böðun með sápu sem hentar þeim. Ungir hundar fá yfirleitt eitthvað af bólum og fílapenslum, slík vandamál minnka samhliða aldri. Mikilvægt er að klæða hundana eftir veðri og passa að þeir hafi mjúk og hlý bæli til að sofa á. Heilsufar Tegundin er almennt heilsuhraust. Meðallíftími þeirra er 13 – 18 ár. Passa þarf uppá mataræðið því þeim þykir gott að borða og geta auðveldlega orðið of þungir. Tengiliður tegundar: [email protected] Höf: Linda Björk Jónsdóttir. // Myndir: Eigendur nýfundnalandshunda á Íslandi. Nýfundnalandshundar eða „Newfies“ eins og þeir eru stundum kallaðir eru mjög stórir og sterklegir vinnuhundar sem þekktir eru fyrir ljúfa lund og þykja sérstaklega barngóðir. Þeir eru meðal stærstu hundategunda í heiminum. Eins og nafnið gefur til kynna eiga þeir uppruna sinn að rekja til Nýfundnalands í Kanada þar sem þeirra helsta hlutverk var að aðstoða sjómenn, auk þess voru þeir látnir draga kerrur og annan búnað ásamt því að passa upp á fólkið sitt. Deilt er um uppruna tegundarinnar en talið er að hundarnir hafi komið til Nýfundnalands með evrópskum sjómönnum og vinsælasta kenningin leggur til að tegundin hafi orðið til út frá Portuguese Water Dog og Great Pyrenees hundum.
Nýfundnalandshundar eru frábærir sundhundar, þeir hafa djúpan brjóstkassa, sundfit á milli tánna og olíukenndan tvöfaldan feld sem heldur á þeim hita á löngum sundferðum. Vegna þess hve sterkir og góðir sundhundar þeir eru, hafa þeir verið notaðir sem björgunarhundar í vatni og hafa bjargað fjölda manns frá drukknun. Höfundur: Bjarnheiður Erlendsdóttir. // Veitt aðstoð: Svava Guðjónsdóttir og Sunna Birna Helgadóttir. // Myndir: Ulrika Zetterfeldt. // Greinin birtist í 2. tbl. 52. árg. 2019. Uppruni
Golden retriever er sérstakt ræktunarafbrigði og er upprunnið á Skotlandi um miðja 19. öld. Tegundin var upphaflega ræktuð úr tveimur þekktum hundakynjum, tweed water spaniel og yellow wavy-coated retriever. Kringum árið 1835 hóf skotinn Sir Dudley Marjoriebanks af kappsemi að reyna að rækta fullkomið afbrigði af veiðihundum. Við þessa ræktun hans varð til tegundin golden retriever. Skotveiðimenn notuðu golden retriever því að þeir hentuðu vel til að sækja vatnafugla því þykkur, hlýr, tvöfaldur feldurinn hentaði vel til að vaða í köldum vötnum skosku hálandanna. Þegar líða fór á 20. öldina jukust vinsældir tegundarinnar mjög og hafa sjaldan eða aldrei verið meiri en einmitt núna og þá einkum sem gæludýr. Fyrir utan það að vera notaðir til veiða þá eru þeir þó einnig notaðir sem vinnuhundar og blindrahundar og eru mikið notaðir sem slíkir. Hundarnir hafa sérlega mikla ánægju af veiðihundaþjálfun og að sækja hluti sem kastað er og það er á meðal þess skemmtilegasta sem þeir gera. Höf: Linda Björk Jónsdóttir // Yfirlestur og myndir í eigu Karenar Aspar Guðbjartsdóttur. Petit Basset Griffon Vendéen eða PBGV eiga uppruna sinn að rekja til Vendée svæðisins í vesturhluta Frakklands þar sem þeir hlupu um lausir yfir gróft landslag í samfloti með veiðimönnum og öðrum hundum í hóp þar sem þeir þefuðu uppi bráð; kanínur og önnur smádýr. Hlutverk þeirra var að þefa uppi bráðina og reka hana úr felustað sínum svo veiðimaðurinn vopnaður skotvopni gæti veitt bráðina. Algengt er að hundarnir séu með hvíta týru í enda skottsins og gerði það veiðimönnunum auðveldara fyrir að koma auga á hundana þegar þeir voru á kafi í gróðri.
Tegundin er minnst af fjórum tegundum sem kennd eru við Vendéen, en hinar tegundirnar eru Grand Basset Griffon Vendéen, Briquet Griffon Vendéen og Grand Griffon Vendéen. Allar eru þessar hundategundir enn í dag vinsælustu veiðihundarnir í Frakklandi. Í upphafi var sama ræktunarmarkmið fyrir Petit Basset Griffon Vendéen og Grand Basset Griffon Vendéen (GBGV) þar sem eini munurinn á milli tegunda var hæð á herðakamb. Það var svo árið 1950 sem PBGV fékk sitt eigið ræktunarmarkmið, það var þó leyfilegt að para saman PBGV og GBGV til ársins 1977 en þá bannaði franska hundaræktarfélagið blöndun á milli tegundanna. Höfundar: Hulda Hrund Höskuldsdóttir og Stefanía Sunna Ragnarsdóttir. Greinin birtist fyrst í Sámi 3. tbl. 45. árg. desember 2016. Uppruni
Pug er upprunalega frá Kína og eru elstu heimildir um tilvist tegundarinnar frá tímum Han keisaraættarinnar frá árinu 206 f.Kr. Þeir nutu mikillar hylli keisara í Kína, þeir lifðu í vellystingum og var jafnvel gætt af lífvörðum hirðarinnar. Þegar viðskipti hófust á milli Evrópu og Kína á 16.öld barst tegundin fljótlega til Evrópu með hollenskum kaupmönnum sem kölluðu tegundina mopshond, nafn sem enn þann dag í dag er notað yfir tegundina í mörgum löndum. Pug var fyrst sýndur á hundasýningu í Englandi árið 1861. Victoria Englandsdrottning var mikil áhugamanneskja um pug, ásamt því að eiga marga pug hunda þá ræktaði hún þá einnig. Hún kaus fawn litinn fram yfir svarta litinn ólíkt henni Lady Brassey sem einnig var mikil áhugamanneskja tegundarinnar sem gerði svarta afbrigðið vinsælt eftir að hún kom með nokkra hunda frá Kína árið 1886. Höfundur: Erna Sofie Árnadóttir // Myndir: Amore Sandys Yakutian Laika & Askur Bárðdal Laufeyjarson. Fyrsti hundurinn af tegundinni Yakutian Laika kom hingað til lands árið 2023 og vitað er um þrjá slíka á landinu. Hundarnir eru fjölhæfir vinnuhundar með tvöfaldan feld sem bera margskonar liti í bland við hvítan. Upprunaland tegundarinnar er Rússland.
FCI: Sleða og veiðihundur – tegundahópur 5. Texti: Guðrún S. Sigurðardóttir. // Greinin birtist í Sámi - 1. tbl. 49. árg. júní 2018. Border collie er fjárhundur sem á uppruna að rekja til Bretlands og Skotlands. Hann er einstaklega góður fjárhundur og fjölhæfur vinnuhundur. Sama hvað lagt er fyrir hann; hlýðni, spor, hundafimi, flyball, rally. Einnig er hann frábær leitarhundur hvort sem er í víðavangsleit eða snjófljóðaleit og að sjálfsögðu frábær fjölskylduhundur, enda talin ein gáfaðasta hundategund í heimi. Hér á eftir kemur lausleg þýðing á tegundarlýsingunni sem gefin er upp hjá FCI: Border collie er meðal stór hundur, kjörhæð hunda er 53 cm. á herðakamb en tíka aðeins lægri. Hann er mjög meðfærilegur, þolgóður og vinnusamur fjárhundur, ákafur og vakandi, móttækilegur og gáfaður. Hvorki taugaveiklaður né árásargjarn. Almennt útlit: Góð hlutföll, jafnar útlínur sem sýna gæði, tígulleika og fullkomið jafnvægi ásamt nægri fyllingu til að gefa þol til kynna. Allar tilhneigingar sem benda til grófleika eða veikleika eru óæskilegar. Mikilvæg hlutföll: Höfuðkúpa og trýni u.þ.b. jafn löng. Búkurinn á að vera aðeins lengri en axlarhæðin. Höfuð og hauskúpa: Kúpan er frekar breið, hnakkinn lítið áberandi. Kinnar hvorki bústnar né kringlóttar. Vöðvinn sem mjókkar niður að nefinu er hæfilega stuttur og sterkur. Stoppið er greinilegt. Nefið: Það skal vera svart nema á brúnum hundum en á þeim má það vera brúnt. Á kolgráum ætti nefið að vera dökkkolgrátt. Nasir eru vel þroskaðar. Augu: Það er langt á milli þeirra, egglaga, miðlungsstór, brún nema á kolgráum hundum sem mega hafa annað eða bæði eða hluta af öðru eða báðum augum dökkblágrá. Svipur mildur, ákafur, vakandi og gáfulegur. Yrjóttir hundar mega hafa annað eða bæði eða hluta af öðru eða báðum augum blá. Eyru: Meðalstór með góðu bili. Hálf upprétt eða upprétt. Næm í notkun. Munnur: Tennur og kjálkar sterk með fullkomið skærabit. Örlítið yfirbit. Jaxlar beinir. Háls: Góð lengd, sterkir vöðvar, dálítið bogin og breikkar niður að öxlum. Framhluti: Framfætur eru samsíða þegar þeir eru skoðaðir framan frá. Kjúkan hallast dálítið skoðuð frá hlið. Beinin eru sterk en ekki þung. Axlirnar liggja vel aftur, olnbogar nálægt líkamanum. Búkur: Stæltur, rifbein fjaðrandi. Bringan hvelfd og frekar breið, lendar hvelfdar og kraftalegar en ekki samandregnar. Búkurinn örlítið lengri en hæð á herðar. Afturhluti: Breiður, kraftalegur frá hlið (hallast þokkafullur að skottinu) Skottið aflíðandi frá lend. Lærin eru löng og hvelfd, kraftaleg með vel beygðum hnjáliðum og sterkir, greinilegir hæklar. Frá hækli og niður eru afturfætur beinaberir og samsíða þegar skoðað er aftan frá. Fætur: Egglaga, þófar, djúpir og sterkir. Tær bognar og þétt saman. Klær stuttar og sterkar. Skott: Miðlungs langt, brjóskið nær niður að hælbeini, liggur lágt, vel loðið og beygist neðst upp í krók og fullkomnar tígulegt yfirbragð og jafnvægi hundsins. Skottið má lyftast þegar hann er spenntur en það liggur aldrei yfir bakið. Göngulag og hreyfingar: Frjálst mjúkt og líflegt með lítilli fótlyftu sem gefur til kynna hæfileika til að hreyfa sig hratt og laumulega. Feldur: Tvær feldgerðir 1) meðallöng hár 2) snöggur feldur. Í báðum tilfellum eru yfirhárin þétt með miðlungs áferð, undirhárin eru mjúk og þétt og verja vel fyrir veðri. Miðlungs feldur, hefur tilbrigði, langhærður feldur myndast á makka, afturenda og skotti Á andliti, eyrum og framlöppum ( að undanskildum hárbrúski aftan á löpp) á löppum frá hækli að jörð eiga hárin að vera stutt og mjúk. Litur: Allir litir leyfilegir. Hvítt má þó aldrei vera yfirgnæfandi. Hundar skulu hafa tvö eðlileg eistu sem eiga að vera komin niður í punginn. Gallar: Öll frávik frá ofangreindu skal líta á sem galla. Meta skal gallana í nákvæmu hlutfalli við það hve áberandi þeir eru, hve mikil áhrif þau hafa á heilsu og velferð hundsins sem og getu hans til að sinna þeirri vinnu sem hann er ræktaður til. Gallar sem valda því að hundur sé dæmdur úr keppni: Árásargirni eða yfirdrifin feimni. Allir hundar sem sýna greinileg líkamleg einkenni og/eða afbrigðilega hegðun skal dæma úr keppni. Border collie er einstaklega góður fjölskyldu hundur, góður með börnum og fljótur að læra. Hann vill ekkert frekar en að þóknast eigandanum í hverju og einu, hvort sem það er að sækja inniskóna, leika nýjar kúnstir, kúra, nú eða spila fótbolta eða leika með frisbee og bara hvað eina sem hugurinn girnist.
Boder collie er frekar heilsuhraust tegund, það þarf að mjaðmamynda og augnskoða ræktunardýr auk þess sem hægt er að DNA prófa fyrir nokkrum arfgengum sjúkdómum sem þó hafa ekki verið að koma upp hér á landi (greinin er skrifuð 2018). Það er ekki mikil feldhirða en þó meiri á loðna afbrigðinu sem þarfnast reglulegrar burstunar. Þjálfun fjárhunda er að sjálfsögðu misjöfn og hver hefur sitt lag. Þrátt fyrir það gengur þetta allt að vissu leiti út á það sama, að vinna með eðli hundsins, og styrkja hann í að vinna eins og eðli tegundarinnar segir til um. Innbyggt í eðli border collie er að safna fénu saman og halda því að smalanum. Grunnatriði í smölun eins og allri annarri vinnuþjálfun er að hundurinn sé taminn og hlýði. Helstu skipanir sem gott er að hafa eru gott innkall og að geta stoppað hundinn og helst fengið hann til að sitja/liggja þar sem hann er. Sem sagt fjarlægðar stjórnun, hundurinn á ekki að koma til eigandans og setjast þar heldur að stoppa þar sem hann er staddur og sitja/liggja/stoppa þar uns næsta skipun kemur. Sé border collie með góðan vinnuáhuga og gott eðli er fljótgert að þjálfa upp nothæfan fjárhund ef grunnhlýðni er til staðar. Allt sem þarf er fjárhelt hólf, nothæfar kindur og að sjálfsögðu að fara með hundinn að æfa sig. FCI er með reglur um eðlispróf og fjárhundapróf fyrir tegundina. Eðlisprófið skiptist í tvo hluta, í fyrri hlutanum er skapgerð og viðmót hundsins metið sem og tenging hans við stjórnandann, eingöngu má fara í seinni hlutann ef hundurinn stenst fyrri partinn. Í seinni hlutanum er smalaeðlið metið, hvort hundurinn hegðar sér eins og tegundin segir til um í návígi við kindur, hundurinn þarf ekki að hafa reynslu af smölun til þess að taka þetta próf. Fjárhundaprófið er aftur fyrir meira tamda hunda þá þarf hundurinn að taka fé út úr rétt, fylgja smalanum með það ákveðna leið, reka féð frá smalanum eftir ákveðinni braut og sækja það með réttu úthlaupi, koma með það til smalans og reka inn í rétt. Höfundur: Sólrún Lilja Ragnarsdóttir // Greinin birtist í Sámi í desember 2015. Lundahundur er lítill spitzhundur sem dregur nafn sitt af sjófuglinum lunda. Hann er um 32-38 cm hár á herðakamb og vegur um 6-7 kg. Karlhundarnir eru sjáanlega kröftugri en tíkurnar og búklengdin er aðeins meiri en hæðin. Feldurinn er millisíður með dökkum, þéttum og stífum yfirhárum og svo með dúnmjúku þeli.
Höfundur: Sunna Líf Hafþórsdóttir // Myndir: Mikaela Sandbacka, Ólöf Gyða Risten, Sunna Líf Hafþórsdóttir og Unnur Sveinsdóttir
Höfundur: Bjarnheiður Erlendsdóttir
Veitt aðstoð: Svava Guðjónsdóttir og Sunna Birna Helgadóttir Myndir: Ulrika Zetterfeldt Höfundur: Bjarnheiður Erlendsdóttir
Myndir: Bjarki Sigurðsson og Hólmfríður Jónsdóttir hjá Auðholtsræktun, Halldóra Björk Magnúsdóttir. |
Greinaflokkar:
All
|